Viðskiptaráð Íslands kynnti í dag nýja úttekt á umhverfi fjölmiðla á Íslandi sem kallast Afsakið hlé: Umhverfi fjölmiðla á Íslandi og fjallar um samkeppnisstöðu fjölmiðla og framtíðarhorfur. Hún varpar ljósi á hversu mjög hefur fækkað á ritstjórnum einkarekinna miðla frá 2008. Ragnar Sigurður Kristjánsson er hagfræðingur á málefnasviði Viðskiptaráðs Íslands.
„Frá árinu 2008 hefur starfandi hjá einkareknum miðlum fækkað um 70% þannig að staða þeirra gagnvart RÚV hjá markaðnum hefur veikst verulega.“
Verulega fækkaði á ritstjórn RÚV árið 2013 en tala má um frjálst fall hjá einkareknum fjölmiðlunum frá 2016 -2020 en fjölmiðlastyrkir voru innleiddir árið 2020.
„Á þessum tíma hefur ríkisútvarpið farið í eina hagræðingaraðgerð sem var 2013 þegar fækkað var um 60 stöðugildi en síðan þá hefur fjölgað aftur um 13% eða um 30 manns en á sama tíma hefur fækkað um eitt þúsund hjá einkareknu miðlunum.“
Úttektin sýnir samanburð ríkisfjölmiðla á Norðurlöndunum.
„Markaðshlutdeild RÚV hér er þreföld á við það sem gerist að meðaltali á Norðurlöndunum og RÚV er eini ríkismiðillinn sem hefur heimild til auglýsingasölu,“ segir Ragnar.
Ráðið kallar eftir úrbótum.
„Um hvernig skapa megi heilbrigðara samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaði og jafna stöðu innlendra og erlendra miðla til dæmis hvað varðar auglýsingasölu og færa markaðshlutdeild RÚV nær því sem gerist á Norðurlöndunum þannig að staðan sé í raun líkari því sem gerist á Norðurlöndunum og þessar 4 tillögur myndu skila fjórum milljörðum í tekjuauka fyrir einkareknu miðlana.“
Þess skal getið að fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar er einkarekin.