Juventus var á heimavelli á móti Verona í lokaleik 27. umferðar og vann 2-0 sigur.
Frakkinn Khéphren Thuram skoraði fyrsta mark leiksins á 72. mínútu. Það stefndi í þriðja 1-0 sigur Juve manna í röð í deildinni þegar Hollendingurinn Teun Koopmeiners bætti við marki á 90. mínútu.
Það er ekki hægt að segja annað en þetta hafi verið sanngjarn sigur. Skotin enduðu 27-5 fyrir Juventus og liðið var 76 prósent með boltann.
Eftir þennan sigur þá er Juventus í fjórða sæti með 52 stig. Liðið er þremur stigum frá þriðja sætinu og sex stigum frá toppsætinu.
Napoli er nú fimm stigum á undan Juventus en í þessum síðustu fimm umferðum þá hefur Juventus fengið ellefu stigum meira en Napoli menn.