Í Grænumörk á Selfossi hafa eldri borgarar meðal annars sína félagsaðstöðu enda er þar sérstök snókerstofa þar sem séra Úlfar er allt í öllu við að kenna konum og körlum að spila snóker. Hann hefur mikið dálæti af snóker og er mjög laginn við að hitta kúlurnar og koma þeim niður í götin á borðinu þrátt fyrir að sjá nánast ekki neitt.
„Já, ég er eiginlega búin að kenna hérna í 15 ár en svo er ég hættur núna en ég get nú sagt mönnum til en ég er eiginlega hættur þessu núna,” segir Úlfar.
En af hverju?
„Ég er lögblindur og sé illa til að spila. Það hljómar einkennilega, það er eins og brandari,” bætir Úlfar við hlæjandi.
En þú ert að standa þig ótrúlega vel í þessu öllu saman, er það ekki?
„Nei, ég er það nú ekki en ég spila bridds enn þá, sé spilin enn þá í blindu og er svona meira í því.”

En hvernig gengur þér að sjá kúlurnar?
„Það að gengur svona nokkuð vel en ég þarf að passa mig á brúnni og rauðri og kannski blárri og grænni,” segir Úlfar.
Úlfar hefur kennt um 45 manns á Selfossi síðustu árin að spila snóker og reglurnar í kringum snókerinn. Einn af þeim er Mjófirðingurinn Gautur Stefánsson, sem býr á Selfossi og hefur verið að læra snóker hjá Úlfari og hælir honum þar í hástert.
„Þetta er bara snillingur í einu orði sagt. Eina leiðinlega við hann er það að það er ekki nokkur leið að komast fram hjá reglunum hjá honum, hann er dálítið fastur á þeim,” segir Gautur og hlær.

En það er ótrúlegt með þessa litlu sjón hvað hann er klár, finnst þér það ekki?
„Jú, maður efast oft um hvort það sé alveg satt, sem hann segir með sjónina nema að hann viti bara hvar götin eru frá gamalli tíð, ég veit það ekki, hann er ótrúlega hittinn á þetta,” bætir Gautur við.