Veður

Við­varanir í gildi og vætu­samt víða um land

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Veðurfræðingar spá rauðum tölum um flestallt land í dag. 
Veðurfræðingar spá rauðum tölum um flestallt land í dag.  Vísir/Vilhelm

Gul viðvörun vegna suðvestanhríðar er í gildi á Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og eystra og á Miðhálendinu fyrri partinn í dag. Búist er við slæmu skyggni og færð á vegum. 

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar en viðvaranirnar verða í gildi fram að hádegi. Veðurfræðingar Veðurstofunnar spá suðvestan 10-18 m/s og él í dag. Hægara verði og skýjað með köflum norðaustanlands. 

Með deginum á síðan að hlýna og um hádegi fer að rigna, segir í hugleiðingum veðurfræðings. Sunnan og suðvestan 8-15 m/s er spáð eftir hádegi og búast má við rigningu víða um land, en helst þurrt að mestu á Austurlandi í dag. 

Á morgun má búast við suðvestan 10-18 og él, en 13-20 um kvöldið. Hvassast verður við suðvesturströndina en hægara og bjart norðaustantil. Hita er víða spáð 0 til 5 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Suðvestan 13-20 m/s og éljagangur, en bjart með köflum um landið norðaustanvert. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag:

Minnkandi vestan- og suðvestanátt og allvíða él, 5-13 síðdegis. Hiti nærri frostmarki. Gengur í sunnan- og suðaustan 10-18 með rigningu eða slyddu sunnan- og vestantil um kvöldið og hlýnar.

Á þriðjudag:

Sunnan og suðaustan 10-18 m/s, talsverð rigning eða slydda og hiti 0 til 5 stig í fyrstu, en síðan suðvestlægari og víða dálítil él, en rofar til norðan- og austanlands. Frystir víða um kvöldið.

Á miðvikudag:

Hæg suðlæg átt og dálítil él á víð og dreif, en gengur í norðanátt með snjókomu austantil um kvöldið. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða éljum, en rofar til sunnan heiða og kólnar í veðri.

Á föstudag:

Breytilegar áttir, víða lítilsháttar él og svalt í veðri.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×