Sport

Van Gerwen lætur „vesa­lingana“ sem hann spilar við heyra það

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael van Gerwen hefur ekki mikið álit á öllum mótherjum sínum.
Michael van Gerwen hefur ekki mikið álit á öllum mótherjum sínum. ap/Kirsty Wigglesworth

Michael van Gerwen, þrefaldur heimsmeistari í pílukasti, segir að margir af mótherjum hans séu hálfgerðir vesalingar.

Van Gerwen keppir á fjórða keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar í pílukasti í Exeter í kvöld. Hann hefur ekki enn unnið keppniskvöld á tímabilinu en situr í 3. sæti úrvalsdeildarinnar.

„Ég hef verið að keppa í úrvalsdeildinni í dágóðan tíma svo það að spila fyrir framan allt þetta fólk færir þér ánægju og kraft og það er það sem er gott við pílukast,“ sagði Van Gerwen.

Hann segir að ekki allir pílukastarar séu með sama hugarfar og hann. Sumir koðni nefnilega niður þegar pressan er sem mest.

„Margir hafa ekki hugarfarið. Veistu hvað ég meina? Þeir segjast bara vera með hugarfarið en eru bara vesalingar. Þannig er það,“ sagði Van Gerwen.

„Þú verður að vera heiðarlegur við sjálfan þig og þegar eitthvað er gott er það gott. Þegar það er slæmt er það slæmt og þú verður að halda áfram, takast á við vandamálin og þegar hlutirnir ganga ekki upp verðurðu að vinna í þeim og horfa fram á veginn.“

Van Gerwen komst í úrslit á HM þar sem hann tapaði fyrir Luke Littler. Hann vann hins vegar ekki titil á árinu 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×