Enski boltinn

Arnór laus úr prísund Blackburn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Sigurðsson í leik með Blackburn Rovers
Arnór Sigurðsson í leik með Blackburn Rovers

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson hefur komist að samkomulagi um starfslok við enska B-deildarliðið Blackburn Rovers. Hann er því laus allra mála og getur fundið sér nýtt lið.

Arnór hefur glímt við mikil meiðsli og veikindi í vetur og ekki komið mikið við sögu hjá Blackburn. Hann fékk þá vænan skell eftir að félagsskiptaglugginn lokaði um síðustu mánaðarmót þegar forráðamenn félagsins tjáðu honum að hann væri ekki í leikmannahópi liðsins í ensku B-deildinni.

Arnór hafði verið orðaður við einhver lið í janúar en hélt kyrru fyrir. Blackburn hafði bætt við sig leikmönnum í glugganum og kom í ljós þegar skrá átti 25 manna hóp til leiks fyrir síðari hluta tímabilsins að ekki væri pláss við meiddan Skagamann.

Félagsskiptaglugginn hafði þá lokað og Arnór læstur inni. Enda lýsti hann þessu sem svo við Vísi að Blackburn hefði sett hann „í skítastöðu“.

Síðdegis var aftur á móti tilkynnt að Blackburn og Arnór hefðu komist að samkomulagi um að slíta samningi hans. Félögum er heimilt að fá leikmenn á frjálsri sölu þrátt fyrir að félagsskiptaglugginn hafi lokað um áramót og ætti Arnór því að geta fundið sér nýjan vettvang til knattspyrnuiðkunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×