Lífið

Konungurinn miður sín eftir mis­mælin

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Gústaf Svíakonungur tilkynnti um nafnið á nýjustu prinsessu landsins í morgun. Myndin er úr safni.
Karl Gústaf Svíakonungur tilkynnti um nafnið á nýjustu prinsessu landsins í morgun. Myndin er úr safni. EPA

Karl Gústaf Svíakonungur er miður sín eftir að hann mismælti sig þar sem hann tilkynnti um nafn nýjasta barnabarns síns og prinsessu Svíþjóðar.

Á fréttamannafundi í morgun tilkynnti konungur nafn fjórða barns Karls Filippusar prins og Sofiu prinsessu. Konungurinn sagði á fréttamannafundinum að nafn prinsessunnar væri Inse Marie Lilian Silvia, að hún skyldi ávörpuð Inse, og að hún yrði hertogaynja af Vesturbotni.

Í tilkynningu frá sænsku konungshöllinni kom hins vegar fram að nafn prinsessunnar væri Ines.

Margareta Thorgren, upplýsingafulltrúi sænsku konungshallarinnar, segir í samtali við sænska fjölmiðla að Karl Gústaf konungur sé mjög leiður að hafa sagt rangt nafn á fréttamannafundinum þar sem meðal annars voru viðstödd Ulf Kristersson forsætisráðherra og Viktoría krónprinsessa, föðursystir nýju prinsessunnar.

„Konungurinn er mjög leiður. Hann upplifði það ekki þannig að hann hafi sagt rangt nafn þegar hann las nöfnin, heldur gerði sér grein fyrir því síðar,“ segir Thorgren.

Hún segir að konungurinn hafi fengið að vita nafnið skömmu fyrir fréttamannafundinn, en að það gerist stundum að fólk lesi vitlaust. Hann hafi óvart víxlað á stöfum í nafninu.

Karl Filippus er annað barn konungs og drottningar. Þau Sofia gengu í hjónaband árið 2015 og eiga fyrir þrjá syni, þá Alexander, Gabríel og Julian. Þeir eru fæddir 2016, 2017 og 2021.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.