Jón Daði fluttist til Burton frá Wrexham fyrir tæpum mánuði síðan. Hann hefur komið við sögu í sex leikjum, skorað fjögur mörk og nú lagt upp eitt.
Stoðsending Jóns Daða var stutt stungusending á 19. mínútu á hinn framherjann, Rumarn Burell, sem brunaði upp tæplega hálfan völlinn og kláraði færið. Jóni Daða var svo skipt af velli á 77. mínútu fyrir Fabio Tavares.
Burton virtist ætla að vinna leikinn en Blackpool tókst að pota inn jöfnunarmarki á fjórðu mínútu uppbótartíma.
Þetta var annað jafntefli Burton í röð eftir þrjá sigra í röð þar á undan. Liðið hefur verið að klífa aðeins upp töfluna að undanförnu og situr nú í 21. sæti með 26 stig eftir þrjátíu umferðir, þremur stigum frá botni League One deildarinnar.
Benóný Breki þreytti frumraun
Benóný Breki Andrésson, markakóngur Bestu deildarinnar síðasta sumar, spilaði sinn fyrsta leik í League One fyrir Stockport þegar hann kom inn á á 68. mínútu í 2-1 sigri gegn Barnsley.
Stockport er í fjórða sæti deildarinnar og hefur unnið síðustu fimm deildarleiki.
Jason Daði með góðan leik fyrir Grimsby
Í næstu deild fyrir neðan var Jason Daði Svanþórsson svo í byrjunarliði Grimsby og spilaði stórvel í 2-1 sigri gegn Carlisle.
Þetta var annar sigur Grimsby í röð eftir tvö jafntefli og þrjú töp í leikjunum þar á undan. Liðið situr í níunda sæti deildarinnar og er að berjast um eitt af efstu sjö sætunum sem gefa möguleika á því að komast upp um deild.