„Þetta er mjög spennandi og við hlökkum mikið til að opna en Nettó opnaði einmitt í þessu sama húsi fyrir nokkrum vikum. Við munum bjóða upp á lengri opnunartíma en tíðkast hefur á svæðinu og okkar markmið er sýna fólki hér hversu þægilegt er að koma í lúgurnar. Það hentar mörgum að þurfa ekki að fara út úr bílnum og svo kann fólk vel að meta það næði sem býðst vilji fólk ræða við lyfjafræðinga og annað starfsfólk um mál sem ekki er gott að gera í kringum aðra,“ segir Helma.

Svo gæti farið að apótekið verði líka opið á sunnudögum en það fór þó allt eftir viðtökunum.
„Auk bílalúganna verðum við með fína verslun og inn í hana verður opið frá klukkan 9 til 19. Við ætlum að kappkosta að bjóða góða þjónustu og allar helstu lykilvörur sem fólk er vant að geta fengið í apóteki, auk lyfja og lausasölulyfja,“ segir Helma.

Þess má geta að Lyfjaval rekur átta apótek, sex á höfuðborgarsvæðinu, eitt í Reykjanesbæ og á Selfossi frá morgundeginum.