Sprottinn er upp furðulegur ágreiningur á þinginu, sem þó er ekki nýr af nálinni. Stjórnmálaflokkar hafa viljað halda í þingflokksherbergi sín.
Furðuleg á eignarhaldstilfinning
Vísir ræddi fyrr í morgun við Hildi Sverrisdóttur þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins sem sagði meðal annars um kröfu Samfylkingarinnar um að þau fengju þetta stærsta þingflokksherbergi á þinginu:
„Ég gef mér að þessi sjónarmið mín hafi verið nægilega skýr til að fólk hafi áttað sig á að það eru engar forsendur uppi til að réttlæta það að þingflokki Sjálfstæðisflokksins sé hent út að nauðsynjalausu úr þingflokksherbergi sínu sem hann hefur haft í 84 ár, eða frá 1941, og hefur auðvitað mikið sögulegt og tilfinningalegt gildi fyrir flokkinn,“ segir Hildur.
Guðmundur Ari segist tiltölulega nýr í þingmennskunni en þessi óbilgirni Sjálfstæðismanna komi flatt uppá hann. Þá kemur honum á óvart að Sjálfstæðismenn hafi rokið í Moggann með málið því þetta hafi verið til umræðu og hann ekki trúað öðru en að þetta myndi leysast farsællega. Í hans huga snýst þetta í raun um tvö samliggjandi herbergi og það að ríkisstjórnarflokkarnir séu í kallfæri hver við annan.

„Það kemur svolítið á óvart að fólk upplifi að það eigi fundaraðstöðu í opinberum byggingum. Ég kannast ekki við að fólk telji sig geta haft eignarhald á slíku.“
En má segja að þetta sé … hvað skal segja, barnalegt af hálfu Sjálfstæðisflokksins?
„Það eru þín orð.“
Furðar sig á hitanum í umræðunni
Ljóst er að Guðmundur Ari vill vanda orð sín. Spurður hvort þetta líti þannig út að þarna hangi meira á spýtunni, að málið sé birtingarmynd þess að Sjálfstæðisflokkurinn telji sig réttborna til valda segir hann:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið síðastliðin ár stærsti flokkurinn, síðastliðna áratugi oftast í ríkisstjórn, hann er það ekki núna, Samfylkingin er stærsti flokkurinn og eðlilegt er að þingflokksherbergi sem er ekki eyrnamerkt neinum flokkum sé raðað eftir stærð og samsetningu flokka.“
Guðmundur ítrekar að þetta mál komi honum á óvart.
„Annars vegar að þau upplifi eignarhald á þessum fundarrýmum og hins vegar hitann í umræðunni í kjölfarið á breytingum.“