Körfubolti

Mögnuðu frammi­staða Dinkins: Skoraði eigin­lega bara að vild

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skilaði bestu frammistöðu í leik síðan 2019.
Skilaði bestu frammistöðu í leik síðan 2019. vísir/anton brink

„Þá kom Brittanny og tók yfir, hún skoraði eiginlega bara að vild,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, sérfræðingur Körfuboltakvölds, um ótrúlega frammistöðu Brittanny Dinkins í sigri Njarðvíkur á Stjörnunni í Bónus deild kvenna á dögunum.

Njarðvík lagði Stjörnuna með átta stiga mun í síðustu umferð Bónus deildarinnar, lokatölur 101-93 í framlengdum leik. Dinkins var sér á báti þegar kom að frammistöðu leikmanna og skilaði einni bestu – ef ekki bestu – frammistöðu tímabilsins. Hún skoraði 48 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 11 fráköst. Þá hitti hún úr átta af níu skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Frammistaða hennar var því eðlilega meðal þess sem var til umræðu í Körfuboltakvöldi að leik loknum.

„Kom mér á óvart að hún skildi ekki taka lokaskotið í venjulegum leiktíma, sérstaklega miðað við frammistöðuna. Hún var hreint ótrúleg og henni fannst ógeðslega gaman,“ bætti Ólöf Helga við.

„Það sem er svo geggjað við hana er hvað þetta áreynslulaust. Hún er þarna inn á, brosandi og alltaf þegar hún tekur skot heldur maður að það sé að fara detta. Er sammála Ólöfu, maður var hissa að hún skildi ekki taka lokaskotið en það lýsir henni svolítið sem leikmanni. Hún er að deila boltanum á allar hinar og treystir þeim til að taka skotið líka,“ sagði Helena Sverrisdóttir.

Dinkins var með 61 framlagsstig sem er það mesta í efstu deild kvenna síðan 2019. Umfjöllun Körfuboltakvölds má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Skoraði eiginlega bara að vild



Fleiri fréttir

Sjá meira


×