Handbolti

Býr sig undir að mæta morðingjum í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Janus Daði í djúpum samræðum við stuðningsfólk eftir leik í Zagreb.
Janus Daði í djúpum samræðum við stuðningsfólk eftir leik í Zagreb. Vísir/Vilhelm

Janus Daði Smárason er klár í slaginn fyrir leik Íslands við Króatíu á HM karla í handbolta í Zagreb í kvöld. Búast má við gríðarmikilli stemningu.

„Ég bara vona að Króatarnir fylli höllina. Við spiluðum á móti Króötum 2018 fyrir fullri höll, sem er eftirminnilegt. Við ætlum að vinna Króata á þeirra heimavelli fyrir fullri höll. Það er stefnan og ég sé ekki af hverju við eigum ekki að geta gert það,“ segir Janus Daði í samtali við Vísi.

Honum verður sannarlega að ósk sinni. Uppselt er á leik kvöldsins og ljóst að Króatar verða töluvert fleiri en Íslendingar í höllinni. Fjöldi blárra treyja jókst töluvert fyrir síðasta leik við Egypta þar sem Íslendingarnir áttu stúkuna með húði og hári.

Það hefur þá fjölgað enn frekar í íslenska hópnum en þónokkrir mættu til borgarinnar í gær og þá kom heil flugvél Icelandair í dag.

Króatar leika undir stjórn Dags Sigurðssonar og þá hefur Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, unnið að því að leikgreina leik íslenska liðsins fyrir kvöldið. Það eru fáir sem þekkja íslenska liðið betur, sem gæti haft áhrif.

En hvernig leik býst Janus Daði við?

„Ég held að Króatarnir verði enn fysískari (en Egyptar). Þeir eru með nokkra morðingja þarna í miðri vörn sem mæta væntanlega brjálaðir með alla orkuna í stúkunni. Króatarnir reyna örugglega líka að keyra í bakið á okkur. Þetta verður bara stríð. Taktíst eru einhver smáatriði en ég held þetta sé bara í hausnum, hver muni vinna leikinn,“ segir Janus.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í heild í spilaranum.

Klippa: Gott að fá Big Mac og búast undir að mæta morðingjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×