Handbolti

„Kominn tími til að hann verði sá besti í heimi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Viktor Gísli og Roland Eradze.
Viktor Gísli og Roland Eradze. Vísir/Vilhelm

Roland Valur Eradze varð markvarðaþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta í aðdraganda HM. Hann hrósar Viktori Gísla Hallgrímssyni fyrir frammistöðu sína en þeir hafa þekkst um hríð.

Roland tók við starfinu í aðdraganda móts en Ísland hefur ekki verið með eiginlegan sérhæfðan markvarðaþjálfara síðustu mót. Roland segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um.

„Hann (Snorri Steinn, landsliðsþjálfari) hafði samband fyrir Svíþjóðarleikina og spurði um aðstoð með markvörðunum. Ég þekkti Viktor, og þjálfaði hann hjá Fram, og má segja að hann hafi vaxið í mínum höndum. Það er gaman að vera hér og ég vonast til að vera lengi í þessu áfram,“ segir Roland sem lék með landsliðinu um nokkurra ára skeið, og var áður markvarðaþjálfari í þjálfaratíð Geirs Sveinssonar.

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur staðið sig gríðarvel á mótinu og var valinn maður leiksins eftir magnaðan leik við Slóveníu. Hann sagði Roland eiga töluvert í því.

Roland Valur Eradze.Vísir/Vilhelm

„Hann þekkir mig vel og veit á hvaða takka á að ýta til að fá mig í gang. Gerir þetta einfalt fyrir mig og ég á honum mikið að þakka,“ sagði Viktor Gísli um Roland eftir sigur Íslands á Slóveníu fyrir fjórum dögum síðan.

Þeir hafa þekkst um hríð en Roland þjálfaði Viktor sem ungan mann hjá Fram. Þrátt fyrir að Viktor væri á barnsaldri sá Roland að þarna væri mikill efniviður.

„Að sjálfsögðu sá ég það. Ég var í Fram að þjálfa yngri flokka. Hann var í fjórða flokki og ég tók hann beint upp í annan flokk vegna þess að hann var hæfileikaríkur strákur. Þú sérð núna, hann er einn besti markvörðurinn á þessu móti,“ segir Roland.

„Það er kominn tími til að hann verði sá besti í heimi. Mér sýnist vera góðar aðstæður til þess núna. Ég vona að hann haldi áfram að spila vel á þessu móti,“ segir Roland enn fremur.

Klippa: Segir Viktor Gísla eiga að verða þann besta í heimi

Fleira kemur fram í viðtalinu við Roland sem má sjá, á ensku, í heild sinni í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×