Handbolti

Haukar og Valur sluppu við að mætast

Sindri Sverrisson skrifar
Haukakonur fögnuðu vel eftir að hafa slegið út Galychanka Lviv í 16-liða úrslitunum.
Haukakonur fögnuðu vel eftir að hafa slegið út Galychanka Lviv í 16-liða úrslitunum. vísir/Anton

Nú er orðið ljóst hverjir mótherjar Vals og Hauka verða í 8-liða úrslitum EHF-keppni kvenna í handbolta. Þau drógust ekki saman og ff íslensku liðin komast áfram þá mætast þau ekki heldur í undanúrslitunum.

Valur og Haukar eru komin langt í keppninni en Valskonur slógu út Malaga frá Spáni í síðustu umferð og Haukar höfðu betur gegn Galychanka Lviv frá Úkraínu.

Bæði íslensku liðin fengu tékkneska mótherja í 8-liða úrslitunum, þegar dregið var í dag. Haukar mæta Hazena Kynzvart en Valur mætir Slavia Prag.

Í 8-liða úrslitunum mætast einnig Porrino frá Spáni og Ionias frá Grikklandi, og Michalovce frá Slóvakíu og Urbis Gniezno frá Póllandi.

Áætlað er að 8-liða úrslitin verði spiluð 15./16. febrúar og 22./23. febrúar. Undanúrslitin eru svo 22./23. mars og 29./30. mars.

Komist Haukar í undanúrslitin mætir liðið Porrino eða Ionias, en Valskonur gætu mætt Michalovce eða Urbis Gniezno.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×