Fótbolti

„Eitt­hvað annað og stærra en ég hef nokkurn tímann upp­lifað“

Aron Guðmundsson skrifar
Freyr Alexandersson hefur tekið til starfa sem þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Brann 
Freyr Alexandersson hefur tekið til starfa sem þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Brann  Getty

Freyr Alexandersson er spenntur fyrir því að reyna við toppbaráttu með einu stærsta liði Norðurlandanna, norska liðinu Brann. Þar eru kröfurnar hins vegar miklar og lítið svigrúm fyrir slæm úrslit. 

„Það eru búnar að vera miklar til­finningar tengdar þessu síðustu þrjár vikur og inn í það blandast náttúru­lega jól og áramót. Til­finningin er of­boðs­lega góð. Ég er mjög stoltur og ánægður með að vera kominn til Brann,“ segir Freyr í sam­tali við Íþrótta­deild.

Hugsaði um að taka sér pásu frá þjálfun

Brann er eitt stærsta knatt­spyrnu­félag Norður­landanna og hefur undan­farin tvö tíma­bil endaði í 2. sæti norsku úr­vals­deildarinnar. Ástríða heima­manna fyrir liðinu er mikil og krafan um titil ríkjandi ár hvert og margt sem heillar Frey við þetta félag. Hann hafði hugsað sér að taka hlé frá þjálfun fram á næsta sumar en svo kom Brann inn í myndina.

„Þegar að ég hætti hjá KV Kortrijk var ég nokkurn veginn með ramma utan um það hvernig ég vildi sjá næsta skref. Ég viss ekki alveg hvenær ég vildi taka það skref, hvort ég vildi aðeins anda og taka mér smá hlé og þar af leiðandi finna starf næsta sumar. En svo er það bara þannig að hlutirnir gerast hratt og þegar að félag eins og Brann kemur inn í myndina þá er ekkert hægt að líta fram hjá því. Maður verður að fara all-in í það.“

Freyr Alexandersson, nýr þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins BrannMynd: Brann SK

„Það sem er mest heillandi við Brann er hversu vel upp­byggður klúbburinn er. Hér er skýr sýn á það hvað þeir vilja, hvernig fót­bolta hér á að spila, fyrir hvað félagið stendur, kúltúrinn í kringum liðið og svo eru þeir með gríðar­lega sterkt sam­spil milli Brann og Bergen. Þetta er félag með 17 þúsund manna völl og að meðaltali mæta um 16.800 manns á leiki. Það eru því tvö hundruð laus sæti á leikjum liðsins að meðaltali, það er ansi gott. 

Allt snýst um Brann í Bergen og eins og ég hef fengið að upp­lifa er fólk hér mjög ástríðu­fullt fyrir félaginu sínu. Það var eitt­hvað sem mig langaði til að taka þátt í. Mig langaði að taka þátt í topp­baráttu, langaði að vera í liði með góðan strúktur og heil­brigða sýn þar sem að það væri bær og félag sem fólk brennur fyrir. Ég fékk það í Brann og er mjög ánægður með það.“

Móttökurnar „eitthvað annað og stærra“

Það var við komuna til Bergen þegar að Freyr áttaði sig á áhuganum á Brann liðinu. Þar beið hans fjöl­menn fjölmiðla­sveit á flug­vellinum

„Ég var búinn að fá að vita svona nokkurn veginn hvernig þetta væri. Birkir Már Sævars­son fyrr­verandi leik­maður liðsins og Magni Fann­berg sem starfaði hérna á sínum tíma lýst þessu fyrir mér. Ég tók þá alveg al­var­lega en þessar móttökur sem ég fékk á flug­vellinum voru eitt­hvað annað og stærra en ég hef nokkurn tímann upp­lifað. Þú finnur þetta hvergi annars staðar í Skandinavíu. Svona hluti. Ég veit að það eru klúbbar sem eru kannski aðeins stærri en Brann en ástríðan og um­fjöllunin í kringum Brann er á hæsta stigi.“

Degi eftir að leiðir Freys og KV Kortrijk skildu um miðjan síðasta mánuð settu forráða­menn Brann sig í sam­band við Frey. Hann fór í viðræður bæði við norska félagið sem og Knatt­spyrnu­sam­band Ís­lands varðandi lausa stöðu lands­liðsþjálfara ís­lenska karla­lands­liðsins og endaði að lokum hjá Brann.

Ætlar að læra „bergenskuna“

Freyr stýrði sinni fyrstu æfingu hjá Brann í gær og fær hann rúman tvo og hálfan mánuð til að gera liðið klárt fyrir komandi tíma­bil og fyrsta leik í norsku úr­vals­deildinni.

„Það er langt síðan að ég hef fengið svona langt undir­búningstíma­bil. Það er frábært. Ég er ekki viss um að ég hefði tekið þetta starf að mér á miðju tíma­bili. Ein af ástæðunum fyrir því að mér finnst þetta starf passa mér vel er sú að ég hef tíma til þess að koma mér inn í hlutina og vinna þetta á eðli­legu tempói. Leik­menn eru þannig séð nýkomnir til æfinga. Búnir að æfa í eina viku áður en að ég kom inn og stjórnaði minni fyrstu æfingu. Það er venju­legur undir­búningur fram undan en vissu­lega svolítið lengri en ég hef vanist upp á síðkastið. Ég mun ein­blína á að kynnast fólkinu hér, leik­mönnum, starfs­liðinu og fólkinu í bænum. Það eru náttúru­lega margir starfs­menn hérna á öllum sviðum. Þetta er það stórt batterí.“

Stuðningsmenn Brann brenna fyrir sitt liðVisir/Getty

„Svo er það náttúru­lega verk­efni að læra tungumálið. Ég tala dönsku og þeir skilja hana alveg hérna en mig langar að geta talað bergensku eins og þeir segja að tungumálið heiti. Fólkið hér talar ekki norsku heldur bergensku. Ég ætla reyna læra það á þremur mánuðum, hella mér inn í þetta. Svo förum við náttúru­lega í það að finna leik­menn, styrkja liðið og svo erum við með ein­hverja leik­menn sem eru mjög eftir­sóknar­verðir. Þetta gengur sinn vana­gang.“

Freyr hefur gefið það út að til að byrja með muni hann hafa til hlið­sjónar leik­kerfi sem lið Brann spilaði undir fyrr­verandi þjálfara sínum á síðasta tíma­bili. Út­gáfa af 4-3-3 leik­kerfinu.

„Eins og staðan er í dag er leik­manna­hópurinn settur saman fyrir það leik­kerfi og það er mikið jafn­vægi í leik­manna­hópnum sem er mjög gott. Ég geng út frá því að við munum hefja okkar undir­búning á að spila það leik­kerfi. Leik­kerfi í dag er hins vegar bara eitt­hvað auka­at­riði (e.secondary), fót­bolti er það fljótandi fyrir­bæri að þú getur sett menn upp í ákveðnar stöður en svo ertu með alls konar færslur. Lykil­at­riðið er hins vegar það að ég mun spila með fjögurra manna varnar­línu. Það er alveg klárt. Svo hvort það heiti 4-3-3 eða 4-4-2 tígull fer svolítið eftir því hvaða leik­menn ég hef til að velja úr og ná því besta út úr.“

Með íslenska leikmenn á radarnum

Varðandi mögu­legar leik­manna­komur segist Freyr vera með ís­lenska leik­menn á sínum radar en líka leik­menn frá öðrum löndum.

„Það eru ís­lenskir leik­menn sem eru áhuga­verðir og áhuga­samir. Auðvitað eru áhuga­verðir ís­lenskir leik­menn. Þetta snýst bara um tíma­setningar, réttu týpurnar, hvað okkur vantar og hverjir séu mögu­lega á lausu. Það sem þú ert kannski að leita eftir er það hvort ég sé með ís­lenska leik­menn á radarnum. Það er þannig. Það eru að sjálfsögðu Ís­lendingar á listanum. Rétt eins og Norð­menn, Danir, Svíar, Eng­lendingar og Wa­les­verjar. Það er nóg af fót­bolta­mönnum þarna úti.“

Logi Tómasson var ítrekað orðaður við KV Kortrijk þegar að Freyr var þjálfari þar. Mun hann ganga til liðs við Brann? Getty/Mike Egerton

Hvað gerir Huseklepp?

Í Noregi hefur verið mikið rætt og ritað um framtíð að­stoðarþjálfarans Erik Hus­eklepp sem starfaði sem að­stoðarþjálfari í teymi fyrr­verandi þjálfara Brann, Eirik Horn­eland. Freyr tók með sér sinn trausta að­stoðarþjálfara Jon­a­t­han Hart­mann, þeir hafa starfað saman hjá bæði Lyng­by og Kortrijk.

Hus­eklepp hafði sjálfur lýst yfir áhuga á því að taka við þjálfarastöðunni hjá Brann en Freyr segir hann verða áfram í þjálfara­t­eymi liðsins eins og staðan er í dag. Hus­eklepp er gífur­lega vel metinn hjá Brann og í Bergen.

„Ég átti marga góða fundi með honum áður en að við hófumst handa. Hann var alveg heiðar­legur með það gagn­vart mér að hann veit ekki alveg sjálfur hvert hann vill fara með sinn þjálfara­feril og hlut­verk. Við byrjum þetta því þannig að hann er í því hlut­verki sem hann var í áður að mestu megni. Með Eirik Horn­eland, sem starfaði sem þjálfari Brann á undan mér, fór einn að­stoðarþjálfari til St. Etienne. Hart­mann fyllir upp í hans skarð og það er því ekki eins og ég sé að bæta við þjálfara­t­eymið eins og staðan er núna. Heldur var laus staða sem betur fer.

Hvað Hus­eklepp varðar mun það bara þróast hvernig hans starf verður hjá okkur. Það er svolítið undir honum komið. Það eina sem skiptir mig máli er að hann sé heiðar­legur trúr í öllu því sem hann er að gera. Hvað okkar sam­starf varðar er ekkert vanda­mál til staðar. Þetta snýst bara um það hvernig hann nýtist félaginu sem best til framtíðar. En það er mikil fjölmiðl­at­hygli á þessu. Hann er stór prófíll í Bergen, hefur verið stór partur af félaginu bæði sem leik­maður og þjálfari. Maður verður bara að lifa með því og leyfa því að hafa sinn vana­gang.“

„Tíu manns í fullu starfi við að elta mig“

Og Freyr staldrar við orð sín um um­fjöllun og at­hygli fjölmiðla á Brann. Hún er gífur­leg.

Freyr skömmu eftir komuna til Bergen, umkringdur fjölmiðlamönnumMynd: BA.no

„Það er engin eðli­leg fjölmiðlaum­fjöllun hérna. Við vorum með fyrstu æfingu í gær og það voru tuttugu fjölmiðlar að fylgjast með æfingunni. Í staðar­blaðinu Bergens Tidende eru fimm blaða­menn í fullri vinnu við að fylgja Brann og sömu­leiðis fimm hjá Bergensa­visen. Í fullu starfi bara við að fylgja Brann. Þetta eru tíu manns í fullu starfi við að elta mig. Ekki elta mig alla daga sem betur fer, það er virðing hérna milli fólks sem betur fer.“

Þurfti að koma sér út úr því að vera bjargvættur

Brann varð síðast norskur meistari árið 2007 en sama hvað tautar og raular er krafan hjá stuðnings­mönnum liðsins alltaf sú að berjast á toppnum og vinna titla. Önnur staða en Freyr þurfti að eiga við hjá Kortrijk og Lyng­by undan­farin ár þar sem hann fékk viður­nefnið krafta­verka­maðurinn fyrir að hafa bjargað þeim liðum frá falli. Freyr er spenntur fyrir því að vera með lið þar sem krafan er slík að vinna titla.

Freyr Alexandersson var og verður í miklum metum í Lyngby.Getty/Jan Christensen

„Ég þurfti að koma mér út úr því að vera bjarg­vættur. Setja saman lið, redda hlutunum og vera í botn­baráttunni. Það voru enda­laust af mögu­leikunum á borðinu fyrir mig þar sem að ég hefði þurft að koma inn og reyna redda hlutunum. Þegar að ég var með Lyng­by í 1.deildinni í Dan­mörku sem og kvenna­lið Vals heima var ég í þeirri stöðu að eiga að vinna deildina með Lyng­by og alla titla með Val. Ég gerði það. Alltaf þegar að ég hef verið í þessari stöðu hef ég náð settu marki. Það er bara svolítið langt síðan. Núna hlakkar mig til. Ég þurfti á þessu að halda, langaði að gera þetta. Ég er bara mjög feginn og þakk­látur fyrir að hafa fengið það tækifæri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×