Innlent

Lands­fundi ekki frestað

Árni Sæberg skrifar
Bjarni Benediktsson tilkynnti á dögunum að hann myndi ekki sækjast eftir áframhaldandi setu sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Nú er ljóst að stjórnartíð hans lýkur mánaðamótin febrúar-mars.
Bjarni Benediktsson tilkynnti á dögunum að hann myndi ekki sækjast eftir áframhaldandi setu sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Nú er ljóst að stjórnartíð hans lýkur mánaðamótin febrúar-mars. Vísir/Vilhelm

Landsfundi Sjálfstæðismanna verður ekki frestað og hann fer fram um mánaðamót febrúar og mars. Þetta var niðurstaða fundar miðstjórnar flokksins, sem lauk um klukkan 14:30.

Þetta staðfestir Viktor Pétur Finnsson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna og miðstjórnarmaður, í samtali við Vísi. Hann segir að fundarmenn hafi verið sammála um að fresta ekki landsfundi. Til umræðu hafi komið að skoða þurfi fresti flokksins vegna ályktana málefnanefnda og þess háttar.

Til umræðu hafði komið að fresta fundinum og í þeim efnum var vísað til þess að veðurfar í lok febrúar eigi það til að vera erfitt.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu fyrir fund að í hennar huga væri alveg ljóst að fundur ætti að fara fram í lok febrúar, nú þegar Bjarni Benediktsson hefur lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér í embætti formanns flokksins.

Í tilkynningu á vef Sjálfstæðisflokksins segir að landsfundur fari með æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum sé forysta flokksins kjörin og fyrir liggi að nýr formaður verði kosinn í ljósi þess að Bjarni Benediktsson hafi tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér áfram.

Frestur félaga og ráða til að kjósa fulltrúa á fundinn sé til og með 14. febrúar næstkomandi. Nánari hagnýtar upplýsingar um fundinn megi finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×