Fótbolti

„Þetta er á­stæða þess að fólk sendir börnin sín í í­þróttir“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Strákar úr 4. flokki HK skipulögðu viðburðinn til styrktar félaga sínum.
Strákar úr 4. flokki HK skipulögðu viðburðinn til styrktar félaga sínum. Vísir

Styrktarleikur fór fram í Kórnum í gær til styrktar Tómasi Frey Guðjónssyni. Samherjar Tómasar í 4. flokki HK skipulögðu viðburðinn og var öllu til tjaldað. Andri Már Eggertsson kíkti á stemmninguna í Kórnum.

Drengir í 4. flokki HK stóðu fyrir viðburðinum en þeir eru allir fæddir árið 2011. Vinur þeirra og samherji, Tómas Freyr, þurfti að fara í erfiðar lyfjameðferðir eftir að hafa greinst með krabbamein og einnig þurfti hann að gangast undir erfiða aðgerð í Svíþjóð.

Auk þess að skipuleggja viðburðinn til styrktar Tómasi Frey tóku strákarnir allir upp á því að krúnuraka sig til að sýna honum frekari stuðning. 

Viðburðurinn hófst með leik HK og Víkinga í 4. flokki en því næst var komið að leik meistaraflokks HK og stjörnuliðs Ómars Inga Guðmundssonar sem þjálfaði HK á síðasta tímabili.

„Þetta er það sem íþróttir og íþróttafélög eiga að snúast um, vinskapur og samheldni. Þetta er held ég ástæða þess að fólk sendir börnin sín í íþróttir, til að vera hluti af svona samfélagi þar sem svona hlutir geta gerst. Það er yndislegt að sjá,“ sagði Ómar Ingi í samtali við Andra Má Eggertsson sem kíkti á stemmninguna í Kórnum.

Fjölmargir þekktir aðilar léku með Stjörnuliði Ómars Inga, meðal annars fyrrum landsliðsmaðurinn Kári Árnason, Hreimur Heimisson, Jóhannes Ásbjörnsson, Höskuldur Gunnlaugsson og Patrik Atlason - einnig þekktur sem Prettyboitjokko.

„Mér finnst aukin pressa á mér því ég er búinn að segja við Kára og Sölva að ég eigi alveg að vera í hóp hjá Víkingi,“ sagði Patrik í samtali við Andra Má.

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

HK



Fleiri fréttir

Sjá meira


×