Körfubolti

„Við lokuðum á allt sem þær reyndu að koma með í endann“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Emil Barja er að gera flotta hluti með kvennalið Hauka. Liðið er með sex stiga forskot á toppnum eftir sigurinn í kvöld.
Emil Barja er að gera flotta hluti með kvennalið Hauka. Liðið er með sex stiga forskot á toppnum eftir sigurinn í kvöld. Visir/Diego

Haukar heimsóttu Njarðvík í IceMar-höllina í kvöld þegar þrettánda umferð Bónus deild kvenna hóf göngu sína. Eftir mikla baráttu og voru það gestirnir frá Hafnarfirði sem styrktu stöðu sína á toppnum með sjö stiga sigri 75-82.

„Ótrúlega gott að vinna en mjög skrítinn leikur,“ sagði Emil Barja,þjálfari Hauka, eftir sigurinn í kvöld.

„Við vorum og þær voru að setja allt ofan í fyrri hálfleik, kannski ekki mikill varnarleikur en breyttist mikið í seinni hálfleik og vörnin mun þéttari og kannski erfiðari skot. Ég var bara ánægður með að við enduðum sem sigurvegarar,“ sagði Emil.

Haukar leiddu á kafla með sautján stigum í fyrri hálfleik en fóru þó einungis með fjögurra stiga forskot inn í hálfleikinn.

„Hann var mjög mikill rússíbani þessi leikur. Ég var líka mjög ánægður með hvað vörnin okkar kom svolítið saman og þjappaði sér í seinni hálfleik. Við vorum ekki að spila góða vörn fannst mér í fyrri hálfleik og vorum að gefa vitlausum leikmönnum opin skot og þær voru bara að setja skotin sín,“ sagði Emil.

Emil Barja var virkilega ánægður með vörnina hjá sínu liði í fjórða leikhluta og vildi jafnvel meina að hún hafi siglt þessu yfir línuna fyrir sitt lið.

„Varnarleikurinn í fjórða fannst mér bara frábær hjá okkur. Við lokuðum á allt sem að þær reyndu að koma með í endann og mér fannst við mjög þéttar og mjög stífar. Það fannst mér það sem kláraði svolítið leikinn fyrir okkur,“ sagði Emil.

Það var ekki mikið skorað í fjórða leikhluta sem var lýsandi fyrir baráttuna inni á vellinum undir restina.

„Þetta var mjög öðruvísi leikur kannski miðað við fyrri hálfleikinn. Þetta var mikil barátta og svo kom reyndar smá „panic“ hjá mínum stelpum í fjórða. Við vorum að taka mjög snemma skot þegar við hefðum kannski átt aðeins að róa okkur niður og við hefðum geta fundið ennþá betra skot en mjög gott að klára þetta,“ sagði Emil.

Það er gríðarlega þéttur pakki við topp deildarinnar og sterkur sigur Hauka styrkti stöðu þeirra á toppnum.

„Mjög sterkur. Þetta er mjög jafnt núna. Þótt við séum efstar þá er ekki nema einn leikur og ef við hefðum tapað þessu þá veit ég ekki hvort þær hefðu farið fyrir ofan okkur en þá hefði þetta orðið rosalega jafnt þannig það er mjög gott að hafa unnið þessi lið við toppinn og við náum að halda okkur í efsta sæti,“ sagði Emil að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×