Tíska og hönnun

Skemmti­legast klæddu á Golden Globe

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Litadýrð, munstur og gleði einkenndi fataval stjarnanna í gær.
Litadýrð, munstur og gleði einkenndi fataval stjarnanna í gær. SAMSETT

Það var mikið um litadýrð á rauða dreglinum í gær þegar stórstjörnur heimsins komu saman á Golden Globe verðlaunahátíðinni í Hollywood. Tískuunnendur fylgdust spenntir með fatavali stjarnanna sem fellur auðvitað alltaf mis vel í kramið en það var ekki laust við að tískustraumar frá árinu 2010 hafi gert vart við sig. 

Hér má sjá nokkrar af eftirtektaverðustu stjörnum kvöldsins: 

Demi Moore

Drottningin Demi Moore glæsileg í Armani Privé.Jeff Kravitz/FilmMagic

Stórstjarnan Demi Moore vann til sinna fyrstu verðlauna í gærkvöldi og var vel að því komin fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Substance. Hún naut sín vel í sérhönnuðum ermalausum Armani Privé galakjól í kampavínslit og valdi silfrað skart við. Moore, sem er 62 ára, skein skært með glansandi hárið niður en hún vann þessa tískusnilld með stílistanum Brad Goreski. 

Elle Fanning

Elle Fanning skein skært í Balmain.Michael Buckner/GG2025/Penske Media via Getty Images

Hin 26 ára gamla Elle Fanning skaust ung upp á stjörnuhimininn og hefur leikið hvert stórhlutverkið á fætur öðru. Hún hefur sömuleiðis gjarnan vakið athygli fyrir tískuvit sitt en þó að stíll hennar sé afslappaður og stílhreinn er hún dugleg að taka áhættu. Hún rokkaði sérsniðinn Balmain satín ljósgylltan síðkjól með hlébarðamynstri yfir brjóstin. Er um að ræða endurgerð á sögulegum kjól tískuhúsins frá árinu 1953. 

 Kerry Washington

Kerry Washington var algjör bleik bomba í Balenciaga.Amy Sussman/Getty Images

Litirnir fengu að leika lausum hala í gær og sterki bleiki liturinn fékk svo sannarlega sitt pláss hjá hinni stórglæsilegu Kerry Washington. Sniðið var heldur óhefðbundið og skemmtilegt og var eins og kjóllinn væri vafinn utan um hana en hann er auðvitað frá óhefðbundna tískuhúsinu Balienciaga. Washington var svo með svarta uppháa dömuhanska við, með hvíta stóra perlulokka og dökka augnförðun. Það hefði ekki komið á óvart að sjá kjól undir innblæstri frá þessum, þó töluvert styttri, á MH balli árið 2010. 

Zendaya

Zendaya stórglæsileg í Louis Vuitton.Taylor Hill/FilmMagic

Zendaya bar af á dreglinum í gær í silkimjúkum Louis Vuitton brún-appelsínugulum galakjól í skóm við úr sömu litapallettu. Hárið hennar er algjörlega stórkostlega fallegt og minnir greiðslan á gamlan Hollywood glamúr sem á í fallegu samtali við demantshálsmenið. Brava! 

Andrew Scott

Andrew Scott stórglæsilegur pastelblár draumur!Amy Sussman/Getty Images

Leikarinn Andrew Scott er best klæddi karlmaður kvöldsins! Æðislega gaman að sjá karlmann velja áberandi lit og það á allar flíkurnar, bláir skór hefðu þó jafnvel sett punktinn yfir i-ið. Jakkafötin eru frá bresku tískugyðjunni Vivienne Westwood en þetta goðsagnakennda merki er þekkt fyrir allt nema leiðinleg föt! 

Cynthia Erivo

Cynthia Erivo stórstjarna í Louis Vuitton.Michael Buckner/GG2025/Penske Media via Getty Images

Wicked drottningin, ofursöngkonan og leikkonan Cynthia Erivo skein skært í óhefðbundnum svörtum og silfruðum síðkjól frá hinu virta tískuhúsi Louis Vuitton. Kjóllinn er dramatískur, fleginn niður að nafla og fullkomlega sniðinn á stjörnuna. 

Nicole Kidman

Nicole Kidman með tryllta greiðslu í glansandi Balenciaga.Jeff Kravitz/FilmMagic

Ástralska undrið Nicole Kidman, stórstjarna með meiru, heldur áfram að rokka Balenciaga og er hér í kjól sem minnir óumflýjanlega á 2000's tískutímabilið. Hárgreiðslan er stórkostleg og Kidman er þrusu flott með fiðrildaeyrnalokka við. 

Jeremy Strong

Jeremy Strong hefur allavega gaman að tískunni!Taylor Hill/FilmMagic

Leikarinn Jerermy Strong, þekktur fyrir hlutverk sitt í Succession, er ekkert að taka lífinu eða tískunni of alvarlega og hefur mögulega fundið þessi flauels jakkaföt í fyrstu búð sem hann fór í. Hatturinn við gerir klæðaburðinn enn skemmtilegri og mintugræni liturinn klæðir karlinn. Það þarf að hafa gaman að þessu! 

Heidi Klum

Heidi Klum sæt og sumarleg í Maria Lucia Hohan.Kevin Mazur/Getty Images

Ofurfyrirsætan Heidi Klum er eins og alvöru álfaprinsessa í sumarlegum grænum kjól sem væri hinn fullkomni kjóll fyrir sumarbrúðkaup hjá bestu vinkonu þinni. Með góða klauf í léttum opnum skóm við, glæsilegt demantshálsmen og silfraða tösku við. 

Keltie Knight

Keltie Knight undir innblæstri 2010 og Gossið Girl.Kevin Mazur/Getty Images

Það er eins og sjónvarpsstjarnan og metsöluhöfundurinn Keltie Knight hafi fengið að kíkja í fataskápinn fyrir hina sívinsælu Gossip Girl þætti sem nutu mikilla vinsælda fyrir rúmum áratugi síðan. Gegnsætt og silfrað og skemmtilegt frá tískuhúsinu Antonios Couture. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.