Fótbolti

Lík­legast að heima­leikur Víkinga fari fram í Kaup­manna­höfn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Víkingum vantar heimavöll.
Víkingum vantar heimavöll. vísir/Anton Brink

Talið er líklegast að heimaleikur Víkings gegn gríska félaginu Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar karla í knattspyrnu fari fram í höfuðborg Danmerkur, Kaupmannahöfn.

Eftir frábæra frammistöðu í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar eru Víkingar komnir í umspil um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Þar sem um útsláttarkeppni er að ræða er regluverk Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, strangara en áður. Það þýðir að Víkingar geta ekki leikið heimaleikinn á Kópavogsvelli eins og til þessa í keppninni.

Nú hafa Víkingar gefið út tilkynningu þess efnis að líklegast verði að leikið verði í Kaupmannahöfn þar sem Færeyjar koma ekki til greina.

„Heimaleikurinn okkar, fer fram fimmtudaginn 13.febrúar og nokkrir staðir eru í skoðun: Osló, Helsinki, Svíþjóð og Kaupmannahöfn. Leikvangur í Kaupmannahöfn er kominn lengst í ferlinu en þó ekkert sé öruggt fyrr en það er 100 prósent öruggt þá er líklegast að við spilum í Köben eins og staðan er núna,“ segir í yfirlýsingu Víkinga.

Þá kemur fram að ekki sé öruggt hvort leikurinn fari fram 13. febrúar þar sem stórlið FC Kaupmannahafnar á heimaleik sama dag og ekki sé víst hvort lögreglan þar í borg samþykki tvo leiki af slíkri stærðargráðu á sama tíma.

„Knattspyrnudeild Víkings hefur unnið myrkranna á milli við að finna bestu lausnina og við munum tilkynna staðfestan leikstað um leið og við mögulega getum,“ segir að endingu í tilkynningu Víkings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×