Íslenski boltinn

Ís­lands­meistarinn Andri Rafn á­fram í röðum Breiða­bliks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Rafn í einum af sínum 435 leikjum fyrir Breiðablik.
Andri Rafn í einum af sínum 435 leikjum fyrir Breiðablik. Vísir/Hulda Margrét

Andri Rafn Yeoman hefur framlengt samning sinn við Íslandsmeistara Breiðabliks í knattspyrnu um eitt ár.

Andri Rafn er orðinn 32 ára gamall og hefur verið lykilmaður í liði Breiðabliks undanfarin ár. Hann er að upplagi miðjumaður en var um tíma helsti vinstri bakvörður Blika og á síðustu leiktíð stóð hann vaktina í hægri bakverði þegar fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson færði sig upp á miðsvæðið.

Eftir að Íslandsmeistaratitilinn var í höfn hafa Blikar sótt tvo leikmenn sem geta leyst stöðu hægri bakvarðar, þá Óla Val Ómarsson og Valgeir Valgeirsson. Þeir þurfa þó að slá Andra Rafn út úr liðinu ætli þeir sér að spila sem hægri bakvörður Breiðabliks.

„Ég ætla að tilkynna ykkur það að ég mun taka slaginn með liðinu á næsta tímabili. Ég hlakka mikið til að hefjast handa og sjá ykkur á komandi mánuðum,“ sagði hinn fjölhæfi Andri Rafn í tilkynningu Breiðabliks fyrr í dag.

Breiðablik er ríkjandi Íslandsmeistari og hefur nú unnið titilinn tvívegis á síðustu þremur tímabilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×