Veður

Slydda eða snjó­koma sunnan- og vestan­til

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona skefur bílrúðu í snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. Myndin er úr safni.
Kona skefur bílrúðu í snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Spáð er suðaustan golu eða kalda með slyddu eða snjókomu með köflum á landinu sunnan- og vestanverðu í dag. Á morgun, laugardag, er víða spáð björtu veðri en talsverðu frosti.

Úrkomulítið á að vera norðaustan- og austanlands í dag. Frost verður á bilinu núll til fimmtán gráður, kaldast í innsveitum norðaustantil en við frostmark við suðvesturströndina. Vindátt á að snúast í norðaustur með lítilsháttar éljum þegar smálægð sem er vestur af Snæfellsnesi ferðast austur og síðar suðaustur, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Spáð er norðaustan og austan 5-13 metrum á sekúndu á morgun, lítilsháttar éljum norðaustantil og stöku éljum syðst. Annars á að vera bjart með köflum og harðnandi frost.

Á sunnudag og mánudag er útlit fyrir stífa norðanátt með éljum en þurru veðri sunnan heiða. Frost á að vera á bilinu fjögur til tólf stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×