„Þetta er bara heiðarlegur vetrarkuldi, þetta er engan fimbulkulda að sjá,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Reikna megi með sjö til tíu stiga frosti við sjávarsíðuna næstu daga en allt að tuttugu stiga frosti inn til landsins.
„Kosturinn við það er að það er hægur vindur, það er enginn blástur með þessu. Þannig að snjórinn helst,“ segir Einar.
Útlit sé fyrir að kuldinn vari fram á nýja árið, jafnvel út fyrstu viku janúarmánaðar. „En það versta stendur yfir áramótin, frá gamlársdegi og fram á 2. janúar.“
Frost mælist sem stendur tíu stig í höfuðborginni. „Það er talsvert frost komið inn til landsins, við sjáum það bæði á Suðurlandi og í Borgarfirði. Það er ennþá dálítill strekkingur á Norðausturlandi,“ segir Einar og spáir því að þar mælist kuldinn mestur.
„Þetta er eins og við eigum von á, við fengum svona kuldakast fyrir tveimur árum á þessum árstíma og þar var kaldara og meira og verra.“
Hvernig mun viðra til flugelda á gamlárskvöld?
„Það verður léttskýjað eiginlega um land allt, nema á Norðausturlandi þar sem gengur á með smá éljum. En þetta snýst voðalega mikið um vindinn. Það verður tíu stiga frost hér í bænum. Mér sýnist á öllu að það verði rétt gola af austri sem ætti að blanda reyknum. Ef ekki er hætt við því að reykurinn svælist niður og það verði hér slæm loftgæði.“