Enski boltinn

Harmur hrokagikksins Haaland

Valur Páll Eiríksson skrifar
Haaland hafa verið mislagðar fætur fyrir framan markið að undanförnu.
Haaland hafa verið mislagðar fætur fyrir framan markið að undanförnu. vísir / getty

Norðmaðurinn Erling Haaland hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu, frekar en liðsfélagar hans í Manchester City. Enginn hefur klúðrað fleiri marktækifærum í ensku úrvalsdeildinni frá því að Norðmaðurinn lét hrokafull ummæli falla eftir jafntefli við Arsenal í haust.

Haaland klúðraði vítaspyrnu gegn Everton í 1-1 jafntefli City á Etihad-vellinum í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Um var að ræða fjórða deildarleikinn sem City mistekst að vinna í röð. Aðeins einn af síðustu níu leikjum liðsins í deild hefur unnist og um sögulega slakt gengi að ræða.

Margur hefur gert grín að Haaland á samfélagsmiðlum vegna ummæla hans við Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, eftir 2-2 jafntefli liðanna í lok september og sett þann hroka í samhengi við slæmt gengi City-liðsins. Að ummælin hafi bitið Haaland í rassgatið.

Haaland sagði Arsenal-liðum þá að halda sig á mottunni og sýna auðmýkt. Þetta gerði hann til að strá salti í sár Skyttanna sem fengu á sig jöfnunarmark frá City á áttundu mínútu uppbótartíma.

City vann að vísu þrjá af næstu fjórum leikjum eftir að ummælin féllu. Síðan þá hefur áðurnefnt níu leikja hrun tekið við þar sem aðeins einn leikur hefur unnist.

Haaland skoraði fyrra mark City í jafnteflinu við Arsenal en hann hafði á þeim tímapunkti skorað í hverjum einasta deildarleik, alls skorað 10 mörk í fyrstu fimm deildarleikjunum.

Síðan þá hefur Norðmaðurinn aðeins skorað þrjú mörk í 13 leikjum, markaskor sem er langt neðan þess sem maður hefur fengið að venjast frá komu hans til Manchester. Það sem meira er, hefur enginn í ensku úrvalsdeildinni klúðrað eins mörgum upplögðum marktækifærum á þeim tíma sem liðinn er frá því að ummælin frægu féllu.

Alls hefur Haaland klúðrað ellefu upplögðum marktækifærum í leikjunum 13 frá því að City mætti Arsenal.

Með jafntefli helgarinnar við Everton missti City bæði Bournemouth og Newcastle upp fyrir sig og situr nú í sjöunda sæti með 28 stig, jafnt Fulham og Aston Villa að stigum sem eru í sætunum fyrir neðan.

Nýliðar Leicester City eru næsta verkefni Manchester City en þeir fyrrnefndu töpuðu 3-1 fyrir Liverpool í gær. Liðin mætast á King Power-vellinum í Leicester 29. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×