Handbolti

Viggó færir sig um set á nýju ári

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson mun leika með HC Erlangen á nýju ári.
Viggó Kristjánsson mun leika með HC Erlangen á nýju ári. HC Erlangen

Íslenski landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson mun yfirgefa DHfK Leipzig yfir til HC Erlangen þegar nýtt ár gengur í garð.

Frá þessu var greint á heimasíðu HC Erlangen í gær, aðfangadag, en eftir því sem fram kemur á Handbolti.is voru forráðamenn Erlangen tilbúnir að greiða um 250 þúsund evrur fyrir örvhentu skyttuna. Það samsvarar um 36,4 milljónum íslenskra króna.

Viggó, sem var samningsbundinn Leipzig til ársins 2027, hefur þó ekki lokið tíma sínum hjá félaginu alveg strax. Liðið tekur á móti Hannover-Burgdorf í þýsku úrvalsdeildinni næstkomandi föstudag áður en hið árlega stórmótahlé tekur við.

Seltirningurinn gengur svo í raðir HC Erlangen þann 1. janúar næstkomandi. Viggó nær því líklega örfáum æfingum með liðinu áður en hann kemur til móts við íslenska landsliðið sem mætir til leiks á HM í handbolta þann 16. janúar gegn Grænhöfðaeyjum.

Gera má ráð fyrir því að Viggó verði í stóru hlutverki fyrir íslenska liðið á HM, sérstaklega í ljósi þess að Ómar Ingi Magnússon verður að öllum líkindum ekki með liðinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×