Haaland klúðraði víti og City tapaði stigum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Erling Haaland klúðraði víti og hefur aðeins skorað þrjú mörk í síðustu þrettán leikjum. Þjálfarinn segir slæmt gengi liðsins ekki honum að kenna. 
Erling Haaland klúðraði víti og hefur aðeins skorað þrjú mörk í síðustu þrettán leikjum. Þjálfarinn segir slæmt gengi liðsins ekki honum að kenna.  Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Manchester City gerði 1-1 jafntefli gegn Everton á Etihad í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar eftir jólafrí. Heimamenn komust yfir og fengu síðan tækifæri snemma seinni hálfleiks til að vinna leikinn, en Erling Haaland brenndi víti. 

Ljóst var að Everton ætlaði sér annað 0-0 jafntefli eins og í síðustu tveimur leikjum gegn Arsenal og Chelsea, en sóknarleikur City manna var ógnarsterkur í upphafi leiks.

Þeir áttu nokkur fín færi fyrstu fimmtán mínúturnar, meðal annars skalla í stöng. Bernardo Silva braut svo ísinn.

Jeremy Doku lagði upp markið eftir að hafa keyrt inn á völlinn af vinstri kantinum og laumað boltanum inn fyrir vörnina á Bernardo Silva. Hann renndi sér á eftir sendingunni og virtist ætla að gefa boltann út í teiginn, en sendingin/skotið fór af varnarmanni og yfir marklínuna.

Bernardo Silva fékk tækifæri til að skora annað mark skömmu síðar.Carl Recine/Getty Images

City hélt áfram að ógna og Silva var næstum því búinn að setja annað mark, en þvert gegn gangi leiksins tókst Everton að jafna.

Abdoulaye Doucouré var settur undir litla pressu, fékk hellings tíma til að athafna sig og senda á fjærstöngina, þar sem Rico Lewis var sofandi á verðinum og dekkaði ekki Illiman Ndiaye sem smellti boltanum með ristinni í netið.

Staðan því jöfn í hálfleik. City menn byrjuðu seinni hálfleik af sama krafti og þann fyrri og

Rico Lewis var ekki að dekka Iliman Ndiaye eins vel og hér.Molly Darlington/Getty Images

Vitalii Mykolenko braut af sér inni í eigin vítateig. Hægri kantmaður City, Savinho, komst klárlega framhjá honum með boltann og Mykolenko gat ekkert kvartað yfir dómnum.

Erling Haaland lét hins vegar verja frá sér úr vítinu, skaut til vinstri og markmaðurinn Jordan Pickford fór í rétta átt. Boltinn skoppaði út í teiginn til City-manna og Haaland tókst á endanum að setja hann í netið, en var þá dæmdur rangstæður.

Annars gekk heimamönnum illa að skapa sér hættuleg færi gegn ógnarsterkri vörn gestanna. Þeir gerðu breytingu á 75. mínútu og settu Kevin De Bruyne inn fyrir Jeremy Doku.

Það gerði lítið og leikurinn fjaraði út. Everton fékk reyndar frábært færi til að vinna leikinn, fjórir á tvo staða úr skyndisókn, en tókst ekki að nýta það.

Þetta var fjórði leikur Everton án taps, þar af jafntefli í síðustu þremur gegn Arsenal, Chelsea og nú Man. City, sem situr í sjötta deildarinnar með 28 stig. Everton er í fimmtánda með 17 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira