Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fundaði í hinsta sinn í morgun eftir sjö ára sögulega valdatíð þverpólitískrar stjórnar. Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tekur við um helgina.
Viðræðurnar eftir hefðinni
Í dag hefur Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, rætt einslega við þingmenn og heyrt afstöðu þeirra til ráðherraskipunar. Gera má ráð fyrir að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafi gert slíkt hið sama.
Þingflokkarnir funda klukkan níu í fyrramálið, hver í sínu horni, þar sem formennirnir munu leggja fram tillögu að ráðherraskipan sem verður samþykkt. Í kjölfarið koma saman flokksráð flokkanna til að fara yfir stjórnarsáttmálann.
„Þetta er nú svolítið eftir hefðinni, formaður stærsta flokksins og sá sem hefur stjórnarmyndunarumboðið, Kristrún Frostadóttir - það er gert ráð fyrir að hún verði forsætisráðherra - og að Viðreisn fái bæði fjármálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Það blasir auðvitað við að Flokkur fólksins mun vilja hafa félagsmálin og velferðarmálin á sinni könnu,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.
Eru einhverjar sérstakar persónur sem eru líklegri en aðrar til að fá þarna sæti?
„Auðvitað skiptir mestu máli hvar formennirnir lenda. Þetta verður ríkisstjórn sem mun þurfa á töluverðrar samhæfingar að halda milli formannanna þriggja.“
Rík áhersla á á sem höllustum fæti standa
Formennirnir munu kynna stjórnarsáttmála og ráðherraskipan á blaðamannafundi klukkan eitt á morgun í Hafnarborg í Hafnarfirði.
„Ég held að tvö mál verði nokkuð örugglega mjög áberandi. Það er annars vegar hvernig eigi að takast á við ríkisfjármálin og stöðu efnahagsmála. Að sama skapi verður þarna örugglega rík áhersla á að rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa,“ segir Eiríkur.
Morgundagurinn endar svo á Bessastöðum þar sem tveir ríkisráðsfundir verða haldnir. Sá fyrri, með fráfarandi ríkisráði, hefst klukkan þrjú og sá síðar, fyrsti fundur nýs ríkisráðs, hefst hálf fimm. Á þeim fundi mun Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, skipa nýtt ráðuneyti - ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.