„Ég tel sjálfur að ég sé tilbúinn í nýja áskorun og næstu skref,“ sagði Rashford í viðtali í gær. Viðtalið birtist í kjölfar þess að Rashford og Alejandro Garnacho voru ekki valdir í leikmannahóp liðsins fyrir stórleikinn við Manchester City á sunnudag.
Það var á Rashford að heyra að hann væri á förum frá United og mögulegt er að þessi næstlaunahæsti leikmaður félagsins verði seldur strax í janúar.
„Ef ég veit að staðan er þegar slæm þá ætla ég ekki að gera hana verri. Ég hef séð hvernig það hefur verið þegar aðrir leikmenn hafa farið í gegnum tíðina, og ég vil ekki vera þannig. Þegar ég fer þá mun ég gefa út yfirlýsingu og hún verður frá mér,“ sagði Rashford í gær og einnig:.
„Þegar ég fer þá verða engar sárar tilfinningar. Þið munuð ekki fá nein neikvæð ummæli frá mér varðandi Manchester United. Þannig er ég sem manneskja.“
Ummælin voru borin undir Amorim á blaðamannafundi í dag, fyrir leikinn við Tottenham í deildabikarnum annað kvöld. Portúgalinn kvaðst ekki hafa rætt við Rashford eftir viðtalið:
„Ekki enn. Það var í gær, á frídegi. Hann er okkar leikmaður og hann er tilbúinn í næsta leik,“ sagði Amorim en kvaðst ætla að ákveða eftir æfingu í dag hvort að Rashford yrði með gegn Tottenham. Hann kvaðst hins vegar ekki vera að ýta Rashford í burtu.
„Ég tala ekki um framtíðina heldur um núið. Við erum betri með Marcus Rashford. Svona félag þarf mikil hæfileikabúnt og hann er mjög hæfileikaríkur,“ sagði Amorim. Spurður nánar út í þau ummæli Rashford að hann teldi sig þurfa nýja áskorun svaraði stjórinn:
„Það er rétt hjá honum. Við erum með nýja áskorun hérna, þá stærstu í fótboltanum. Við erum í erfiðri stöðu. Ég vona að allir leikmenn mínir séu tilbúnir.“
Rashford, sem er 27 ára, er uppalinn United-maður og hefur skorað 138 mörk í 426 leikjum síðan hann kom fyrst inn í United-liðið árið 2016.