West Ham hafði tapað tveimur leikjum í röð og aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum. Liðið er nú í fjórtánda sætinu en aðeins einu stigi á eftir Manchester United.
Úlfarnir sitja aftur á móti í fallsæti en þeir eru fjórum stigum frá öruggu sæti.
Leikmenn West Ham hituðu allir upp í treyju Michail Antonio fyrir leikinn en jamaíski framherjinn slasaðist í bílslysi um helgina og óttast er um framtíð hans í fótboltanum.
Jarrod Bowen var öflugur fyrir West Ham í fjarveru Antonio en hann var bæði með mark og stoðsendingu í leiknum í London í kvöld.
Bowen lagði upp fyrra markið fyrir Tomas Soucek sem skoraði með skalla á 54. mínútu. Stuttu síðar dæmdi Varsjáin mark af Mohammed Kudus. Kudus kom boltanum tvívegis í markið í kvöld en var dæmdur rangstæður í bæði skiptin.
Matt Doherty jafnaði metin fyrir Wolves á 69. mínútu en það tók West Ham liðið aðeins þrjár mínútur að komast aftur yfir.
Jarrod Bowen skoraði þá eftir stoðsendingu frá Kudus og það reyndist vera sigurmarkið í leiknum. Hann fagnaði marki sínu með því að lyfta treyju Michail Antonio fyrir aftan markið.
Úlfarnir töpuðu þarna þriðja leiknum í röð og hafa aðeins unnið tvo af fimmtán leikjum sínum í deildinni í vetur. Þetta gæti því hafa verið síðasti leikur knattspyrnustjórans Gary O'Neil.