„Hvar er ég? Hvað er að gerast? Í hvaða bíl er ég?“ á Antonio að hafa spurt vegfaranda sem kom honum til hjálpar, eftir að þessi 34 ára framherji lenti í hræðilegu bílslysi á laugardaginn. Eins og sjá má á myndinni hér að ofan skemmdist Ferrari-bifreið hans afar illa og þurfti að klippa Antonio út úr bílnum.
West Ham greindi frá því í gær að hann hefði fótbrotnað við áreksturinn en að hann hefði nú gengist undir vel heppnaða aðgerð á sjúkrahúsi.
„Allir hjá félaginu óska Michail skjóts bata og þakkar fótboltafjölskyldunni innilega fyrir þann mikla stuðning sem sýndur hefur verið eftir fréttir gærdagsins,“ sagði í yfirlýsingu West Ham þar sem sjúkrafólki og öðrum sem fyrst komu á vettvang var einnig þakkað sérstaklega.
𝐂𝐥𝐮𝐛 𝐒𝐭𝐚𝐭𝐞𝐦𝐞𝐧𝐭 - 𝐌𝐢𝐜𝐡𝐚𝐢𝐥 𝐀𝐧𝐭𝐨𝐧𝐢𝐨 𝐔𝐩𝐝𝐚𝐭𝐞
— West Ham United (@WestHam) December 8, 2024
West Ham United can confirm Michail Antonio has undergone surgery on a lower limb fracture following a road traffic accident on Saturday afternoon.
Michail will continue to be monitored in hospital over… pic.twitter.com/vg7vQbjssU
Breskir miðlar, til að mynda The Guardian og The Sun, segja að Antonio, sem er 34 ára og fjögurra barna faðir, verði frá keppni í að minnsta kosti eitt ár. Hann verður áfram á sjúkrahúsi næstu daga þar sem fylgst verður áfram með líðan hans.
Ljóst er að Antonio verður hvergi nálægt þegar West Ham mætir Wolves í kvöld, í ensku úrvalsdeildinni. Hann kom til Hamranna frá Nottingham Forest árið 2015 og hefur skorað 83 mörk og átt 41 stoðsendingu, í 323 leikjum.