Allir samflokksmenn Sigurðar við ríkisstjórnarborðið féllu út af þingi í nýafstöðnum kosningum. Það eru þau Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Á kosninganótt var lengi vel útlit fyrir að Sigurður myndi ekki ná inn á þing, en þegar síðustu tölur bárust varð ljóst að hann kæmi inn sem uppbótarþingmaður, á kostnað Willums.
Eftirsjá fyrir flokk, þing og þjóð
Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttamaður okkar ræddi við Sigurð Inga að loknum ríkisstjórnarfundi í dag, og hann spurður hvernig hljóðið væri í fráfarandi ráðherrum Framsóknar og flokksmönnum.
„Þetta voru vonbrigði, þessar kosningar. Það er mikil eftirsjá af svo öflugu fólki, bæði fyrir Framsókn en líka fyrir þingið og þjóðina, að missa svona reynslumikið fólk,“ sagði Sigurður Ingi.
Hann segir Framsóknarmenn eðlilega svekkta með úrslit kosninganna. Flokkurinn fékk 7,8 prósent atkvæða á landsvísu og fer úr þrettán þingmönnum í fimm.
„Eins og ég sagði fyrir kosningar þá er það formaðurinn sem ber ríkasta ábyrgð. Ég tek hana til mín.“
Ekki möguleiki á Framsókn í ríkisstjórn
Hann segir, þrátt fyrir stöðu flokksins, að ekki hafi verið rætt um formannsskipti.
„Það er ekkert fararsnið á mér.“
Sigurður segir augljóst á úrslitum kosninga að ákall hafi verið um breytingar, og að Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins myndu láta reyna á stjórnarmyndunarviðræður eins og nú er raunin.
„Mér líst bara ágætlega á það,“ sagði Sigurður.
Ef svo færi að þetta verður eitthvað flókið í framhaldinu og byrjað að ræða við ykkur, heldurðu að það sé einhver möguleiki á því í ljósi stöðunnar og væruð þið tilbúin til þess?
„Nei. Niðurstöður kosninganna voru mjög skýrar. Það er ákall um breytingar og að þessir þrír flokkar axli þá ábyrgð. Málið er hjá þeim og kosningarnar enduðu þannig að það er eðlilegt að við í Framsókn séum í stjórnarandstöðu.ô