Eyrún Helga Aradóttir, sviðsstjóri táknmálssviðs Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, segir börnin hafi verið afar ánægð með útkomuna, en þau sáu myndbandið í fyrsta skipti í gær. Hún segir þau alls ekki hafa átt von á því að myndbandið myndi vekja svona mikla athygli.
Táknmálseyja er markvisst málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á grunnskólaaldri. Verkefnið miðar að því að útbúa táknmálsumhverfi fyrir öll táknmálsbörn þar sem þau læra íslenskt táknmál í gegnum leik og starf.
„Þau eru vön því að koma fram en ekki endilega að syngja svona á okkar vegum. Við fengum þá hugmynd að fá þau til okkar einn auka dag á laugardegi og fórum yfir þýðingarnar á laginu í stúdíói. Þetta er í fyrsta skipti sem við gerum þetta en klárlega eitthvað sem við munum gera aftur,“ segir Eyrún Helga og bætir við: „Við vissum ekki að þetta færi svona á flug.“
Myndbandið er tekið upp og unnið á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og má sjá í spilaranum hér að neðan.