Enska úrvalsdeildin kærði City fyrir að minnsta kosti 115 brot á rekstrarreglum og svo gæti farið að City yrði dæmt niður um deild og myndi missa alla titla sína á þeim tímabilum sem City braut af sér.
Réttarhöldin fara fram fyrir luktum dyrum og hafa staðið yfir í ellefu vikur.
„Eins og þetta gengur núna þá lítur út fyrir að þetta klárist fyrir jól,“ sagði Kaveh Solhekol.
Undirbúa lokaframsögu sína
Hlé hefur verið gert á málarekstrinum á meðan báðir aðilar fá tækifæri til að undirbúa lokaframsögu sína. Lokaræðurnar verða síðan fluttar í byrjun desember eða um miðjan mánuðinn.
„Þá þurfum við að bíða eftir dómnum og það er von á honum í vor. Mér finnst líklegast að það verði í mars. Málið klárast þó ekki endilega þá,“ sagði Solhekol.
„Báðir aðilar fá nefnilega að tækifæri til að áfrýja. Ef annar hvor aðilinn vill áfrýja þá mun það framlengja málið um nokkra mánuði til viðbótar,“ sagði Solhekol.
Neita öllum ásökunum
Manchester City neitar öllum þessum ásökunum en kærurnar gætu verið fleiri en 115 samkvæmt Solhekol. Enska úrvalsdeildin tilkynnti fyrst um 115 kærur en þær voru mögulega á endanum 130 talsins.
„Menn eru ósammála um það hvort að kærurnar séu 115 eða 130. Enska úrvalsdeildin hefur aldrei staðfest þessa tölu. Fólk er því að tala um mismunandi tölur,“ sagði Solhekol.
Fór yfir brotin sem voru kærð
Solhekol fór aðeins yfir það hvaða brot þetta voru.
„Þetta eru samt örugglega fleiri en hundrað kærur. Þær snúast um að gefa upp ekki réttar upplýsingar um reksturinn á níu tímabilum, gefa ekki upp rétt laun leikmanna á sex tímabilum og gefa ekki upp fullar greiðslur til knattspyrnustjórans Roberto Mancini í fjögur tímabil. Auk þess að vera ekki samvinnuþýðir við öflum upplýsinga í rannsókn málsins sem tók meira en fjögur ár. Þeir eru líka sakaðir um brot á rekstrarreglum UEFA,“ sagði Solhekol.