BBC, Guardian og De Telegraaf segja frá þessu alveg eins skúbbarinn frægi Fabrizio Romano.
Van Nistelrooy stýrði Manchester United í fjórum leikjum á dögunum eftir að Erik ten Hag var rekinn. United vann þrjá af þessum leikjum og tapaði engum.
Ruben Amorim var síðan ráðinn knattspyrnustjóri United og Portúgalinn vildi ekki halda Van Nistelrooy hjá United þrátt fyrir að Hollendingurinn hefði sóst eftir því.
Vann Leicester tvisvar á dögunum
Tveir af sigurleikjum United í þessari stuttu knattspyrnustjóratíð Van Nistelrooy voru einmitt á móti Leicester. United vann 5-2 í deildabikarleik liðanna og svo 3-0 sigur í deildinni.
Leicester rak Steve Cooper eftir 2-1 tap á móti Chelsea um síðustu helgi. Liðið situr í sextánda sæti en er aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Cooper entist stutt í starfi því hann tók við í sumar þegar Enzo Maresca hætti til að taka við Chelsea. Maresca hafði komið liðinu aftur upp í ensku úrvalsdeidina.
Aðeins tveir sigrar á leiktíðinni
Leicester tókst aðeins að vinna tvo sigurleiki undir stjórn Cooper. Það er því ljóst að Van Nistelrooy bíður afar krefjandi starf ætli liðið að fara ekki beint niður aftur.
Þetta verður annað aðalstjórastarf Van Nistelrooy fyrir utan Manchester United. Hann stýrði PSV Eindhoven tímabilið 2022-23 og gerði liðið meðal annars að hollenskum bikarmeisturum.
Næsti leikur Leicester er útileikur á móti Brentford á laugardaginn en það er ekki vitað hvort Van Nistelrooy stýrði liðinu þar. Ben Dawson mun líklega taka að sér þann leik.