Guðni sagðist ekki alveg skilja taktík Kennarasambands Íslands í verkföllum sínum en eins og hefur verið ítarlega greint frá eru svokölluð skæruverkföll í gangi í tíu skólum. Fleiri skólar munu bætast við seinna. Grunn- og framhaldsskólar eru í tímabundnum verkföllum en leikskólarnir í ótímabundnum verkföllum.
„Ég skil ekki alveg þá taktík sem er í gangi. Verkföll eru nauðsynlegur réttur allra launþega en svo er umhugsunarefni hvernig því vopni er beitt og jafnvel á hverjum það bitnar, saklausum sérstaklega,“ sagði Guðni en að það væri umræðuefni fyrir annan tíma. Hann hafi ætlað sér að vera stuttorður því erfitt sé að keppa við jólasveina og aðra skemmtun.
Fjölmargir foreldrar barna sem eru í verkfalli hafa lýst yfir óánægju með taktík kennara. Umboðsmaður barna sagði í tilkynningu fyrr í mánuðinum að verkföllin mismunuðu börnum.
Sjá einnig: Lykildagar fram undan: „Það er mjög erfitt ástand á heimilinu“
Í ræðu sinni þakkaði Guðni einnig Seltirningum fyrir góða kennslu og uppeldi sem börn hans hlutu í leikskólanum en fjölskyldan var búsett þar áður en þau fluttu á Bessastaði.
Í auglýsingu fyrir viðburðinn kom fram að í boði yrðu pizzur og gos frá 107, kökur, andlitsmálning, blöðrudýr og Íþróttaálfurinn. Þá kom einnig fram að Guðni myndi kasta kveðju á hópinn.