Fótbolti

Svartfellingar unnu Tyrki ó­vænt og hjálpuðu Wales upp í A-deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Krstovic fagnar einu þriggja marka sinna í rigningunni í Niksic í kvöld.
Nikola Krstovic fagnar einu þriggja marka sinna í rigningunni í Niksic í kvöld. Getty/Filip Filipovic

Svartfjallaland vann mjög óvæntan 3-1 sigur á Tyrklandi í riðli Íslands í Þjóðadeildinni í kvöld.

Sigurinn sá til þess að Tyrkir vinna ekki riðilinn og komast því ekki beint upp í A-deildina. Þeirra bíður umspil um sæti í A-deildinni.

Wales tryggði sér sigurinn í riðlinum með 4-1 sigri á Íslandi á sama tíma. Wales endar með tólf stig en Tyrkir með ellefu stig.

Svartfellingar voru aftur á heimavelli eins og í tapinu á móti Íslandi og aftur á hinum arfaslaka leikvelli hjá sér. Það rigndi líka mikið í kvöld og völlurinn varð að hálfgerðu drullusvaði.

Fyrir leikinn voru Svartfellingar stigalausir á botni riðilsins og aðeins búnir að skora eitt mark. Þeir unnu engu að síður frábæran 3-1 sigur á Tyrkjum.

Nikola Krstovic var hetja heimamanna en hann skoraði þrennu í leiknum.

Fyrsta markið skoraði Krstovic á 29. mínútu en Kenan Yildiz jafnaði fyrir Tyrki átta mínútum síðar.

Krstovic kom Svartfjallalandi aftur yfir á 45. mínútu og innsiglaði síðan þrennu sína með skallamarki á 73. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×