Sport

Steig á tána á Mike Tyson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jake Paul  sagðist ekki hafa fundið mikið fyrir þessum kinnhesti frá Mike Tyson en trúir því einhver?
Jake Paul  sagðist ekki hafa fundið mikið fyrir þessum kinnhesti frá Mike Tyson en trúir því einhver? Getty/ Stephen McCarthy

Mike Tyson hefur nú útskýrt það af hverju hann snöggreiddist í gær og gaf Jake Paul vænan kinnhest á vigtuninni fyrir bardaga þeirra í nótt.

Félagarnir mætast i hringnum í Texas og það er óhætt að segja að áhuginn sé mikill á þessum stórfurðulega bardaga þar sem Youtube stjarna á þrítugsaldri mætir 58 ára gömlum fyrrum heimsmeistara í hringnum.

Talið er um að Tyson fái tuttugu milljónir dollara fyrir bardagann, 2,7 milljarða, en Jake Paul tvöfalt meira eða 5,5 milljarða í íslenskum krónum.

Áhuginn minnkaði ekki eftir lætin í gær þar sem Jake Paul skreið upp að Tyson sem skyndilega ákvað að slá hann á kinnina þegar þeir stóðu andspænis hvorum öðrum.

Einhverjir héldu eflaust að Tyson hafi talið að Jake Paul hafi verið að sýna honum óvirðingu en það hefur svo sem verið nóg af því í aðdraganda bardagans.

Ástæðan var hins vegar allt önnur.

„Hann seig á tána mína af því að hann er helvítis fífl. Ég fann vel fyrir þessu og ég varð að bregðast við,“ sagði Mike Tyson.

Jake Paul er þekktur fyrir að taka upp á alls konar hlutum í aðdraganda bardaga sinna og það kæmi ekki mikið á óvart ef hann hefði ekki æft þetta fyrir fram. Allt til þess að fá sterk viðbrögð frá hinum reynda Tyson.

Jake Paul er að keppa við hnefaleikagoðsögn en Tyson kemst á sjötugsaldurinn eftir bara tvö ár.

Paul er samt sannfærður að það skipti engu máli. Hann er þrjátíu árum yngri.

„Ég trúi því að ég gæti unnið Mike Tyson sama hvenær á hans ferli við myndum berjast,“ sagði Jake Paul.

Tyson var margfaldur heimsmeistari þegar hann var upp á sitt besta og rotaði þá mann og annan í hringnum.

Við fáum víst aldrei að vita svarið við þessu en það er eins gott fyrir Paul að hann vinni þá Tyson þegar hann er 58 ára gamall.

Box

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×