Í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar segir að lægð gangi yfir landið á morgun og víða verði hvass vindur og blint í snjókomu og skafrenningi með erfiðum akstursskilyrðum.
„Á suðvestanverðu landinu í fyrramálið og að fram á hádegi, þá einkum á fjallvegum. Á norðvestanverðu landinu í fyrramálið og fram á kvöld, og fer þá að snjóa austantil. Þurrt suðaustanlands en hvessir þar með hviðum yfir 40 m/s við fjöll annað kvöld,“ segir í tilkynningunni.
Gular viðvaranir taka gildi á vestanverðu landinu í fyrramálið og appelsínugular viðvaranir á Norðurlandi eystra klukkan 15, Austurlandi að Glettingi klukkan 17, Suðausturlandi klukkan 18 og Austfjörðum klukkan 20. Er reiknað með að óveðrið verði að mestu gengið niður á laugardagsmorgninum.
Má reikna með hvassviðri eða stormi, víða 18 til 25 metrum á sekúndu með snjókomu og lélegu skyggni. Miklar líkur á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður.