Körfubolti

Ísak hættur með ÍR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Máni Wium hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs ÍR í körfubolta.
Ísak Máni Wium hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs ÍR í körfubolta. vísir/diego

Fyrstu þjálfarabreytingarnar hafa orðið í Bónus deild karla í körfubolta því Ísak Máni Wium er hættur með ÍR.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu óskaði Ísak sjálfur eftir því að láta af störfum. Aðstoðarþjálfarinn Baldur Már Stefánsson stýrir ÍR í næsta leik liðsins sem er gegn Njarðvík á föstudaginn.

Ísak var á sínu þriðja tímabili með ÍR en hann tók við liðinu 2022. ÍR-ingar féllu úr efstu deild tímabilið 2022-23 en unnu sér sæti í henni á ný á síðasta tímabili.

ÍR-ingar hafa tapað öllum sex leikjum sínum í Bónus deildinni á þessu tímabili og eru neðstir ásamt Haukum.

Þótt Ísak hafi látið af störfum sem þjálfari karlaliðs ÍR er hann ekki hættur hjá félaginu því hann mun áfram starfa sem yfirþjálfari yngri flokka þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×