Liverpool tryggði sér efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 2-1 sigri gegn Brighton á Anfield. Heimamenn lentu undir en tvö mörk á tveimur mínútum í seinni hálfleik tryggðu sigurinn. Manchester City tapaði samtímis gegn Bournemouth og Liverpool er því með tveggja stiga forystu á toppnum.
Liverpool átti nokkrar ágætis sóknir í upphafi leiks, Darwin Nunez skapaði sér stórhættulegt færi með sprett upp hálfan völlinn en markvörðurinn gerði vel og varði.
Gegn gangi leiks lenti Liverpool undir á 14. mínútu, sending barst inn í teig sem Danny Welbeck fleytti áfram á Ferdi Kadioglu og hann átti frábært skot sem small í stöngina og inn.

Liverpool færði liðið ofar í leit að jöfnunarmarki en það skapaði bara sénsa fyrir Brighton, sem fékk nokkur fín færi áður en fyrri hálfleik lauk en kom ekki öðru marki að.
Tvö mörk á tveimur mínútum
Liverpool mætti mun betur búið til leiks í seinni hálfleik og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Þar til á 70. mínútu, þegar Cody Gakpo gaf fyrir á Darwin Nunez sem lét boltann fara og horfði á hann skoppa í fjærhornið.
Aðeins tveimur mínútum eftir að hafa jafnað tóku heimamenn svo forystuna með snöggri skyndisókn eftir misheppnað skot Danny Welbeck.
Varamennirnir Luis Díaz og Curtis Jones spiluðu saman upp völlinn áður en sá síðarnefni lagði boltann til hliðar á Mohamed Salah. Hann keyrði inn völlinn og skaut með vinstri fæti í fjærhornið, óverjandi.

Liverpool lagðist neðarlega á lokamínútunum og varði forystuna til enda leiks. 2-1 sigur tryggður og fögnuðurinn magnaðist enn frekar þegar leikmenn áttuðu sig á tapi Manchester City.
Liverpool er í efsta sæti deildarinnar með 25 stig, þar á eftir er Manchester City með 23 stig.