„Innblástur í danstónlist hefur maður yfirleitt sótt út til Carl Craigs enda einn af þessum frumkvöðlum sem að hefur haft gífurleg áhrif. Mér finnst hann skilja tónlist á djúpan hátt og stoppar ekki bara við eitt genre, heldur leyfir sér að experimenta, frá raftónlist, hiphop, house,“ segir Benedikt Freyr Jónsson hjá Lifandi verkefnum.
Hann segir gesti eiga von á ógleymanlegu setti þann 8. nóvember.
„Þetta er Carl Craig show þannig að það má búast við ógleymanlegu setti þar sem hann er að fara með þig gamla og nýja heima. Upphitunin er líka ekkert slor, Introbeatz hefur ekki komið fram á Íslandi í langan tíma og mun færa okkur allt það besta frá sér og Yamaho með eðal sett í extra kerfi frá Luxor,“ segir Benedikt og bætir við:
„Fyrir þá sem hafa áhuga á raftónlist, house, hiphop þá er þetta viðburður eitthvað sem þú vilt ekki missa af.“
Natalie Gunnarsdóttir, eða DJ Yamaho, segist einnig afar spennt fyrir viðburðinum.
„Hann er einn af brautryðjendum teknó og danstónlistar og hefur haft áhrif á alla danstónlist síðan hann byrjaði.“

Í tilkynningu um tónleikanna frá Lifandi verkefnum sem flytur hann inn kemur fram að Craig er hluti af annarri kynslóð Detroit-teknó tónlistarmanna ásamt þeim Juan Atkins, Derrick May og Kevin Saunderson.
Craig stofnaði sitt eigið plötufyrirtæki, Planet E Communications, sem hefur gefið út tónlist frá honum sjálfum og mörgum öðrum áhrifamiklum listamönnum innan teknótónlistar. Meðal listamanna sem hann gefur út eru Moodyman, Kevin Saunderson og Kenny Larkin.
Þá hefur hann einnig unnið með fjölmörgum tónlistarmönnum og hefur meðal annars endurhljóðblandað verk fyrir listamenn á borð við Tori Amos, Depeche Mode og LCD Soundsystem.