Fótbolti

Fær­eyingar ráku þjálfara sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Håkan Ericson byrjaði vel með færeyska landsliðið en lítið hefur gengið undanfarin ár.
Håkan Ericson byrjaði vel með færeyska landsliðið en lítið hefur gengið undanfarin ár. Getty/Huseyin Yavuz

Svíinn Håkan Ericson verður ekki áfram þjálfari færeyska fótboltalandsliðsins.

Ericson er búin að vera þjálfari liðsins í fimm ár en lítið hefur gengið að undanförnu.

Á heimasíðu færeyska sambandsins var tilkynnt um endalok samstarfsins. Eyðun Klakstein mun stýra færeyska liðinu í síðustu tveimur leikjunum í Þjóðadeildinni í nóvember og Atli Gregersen aðstoðar hann.

Færeyska liðið hefur ekki unnið keppnisleik í tvö ár og hefur spilað tólf leiki í röð án sigurs. Færeyjar eru í 140. sæti á FIFA listanum og féllu niður um tvö sæti á síðasta lista en þeir voru í 125. sæti í apríl 2023.

Hinn 64 ára gamli Ericson stýrði Færeyjum í 34 keppnisleikjum og liðið fékk stig í helmingi þeirra. Samtalsí öllum leikjum voru þetta 9 sigrar og 13 jafntefli í 49 leikjum.

Síðasti leikur liðsins undir hans stjórn var 1-1 jafntefli á móti Lettlandi í Þjóðadeildinni þar sem Færeyingar spila í C-deild. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Armenínu þremur dögum áður.

Færeyjar eru í neðsta sæti í sínum riðli með engan sigur og þrjú jafntefli í fjórum leikjum

Færeyska liðið fagnaði síðast sigri á móti Liechtenstein í vináttulandsleik á Marbella í mars en Færeyingar unnu síðast keppnisleik á móti Tyrkjum í Þjóðadeildinni 25. september 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×