Þetta segir Eva í samtali við fréttastofu. Lögreglan tilkynnti 26. september síðastliðinn á Facebook-síðu sinni að rannsóknin hafi verið felld niður. Um er að ræða rannsókn sem staðið hefur yfir í rúm þrjú ár á meintri byrlun Páls, afritun upplýsinga af síma hans og dreifingu á kynferðislegu myndefni sem á símanum var. Málsaðilar hafa mánuð til að kæra niðurfellinguna til ríkissaksóknara.
Sjö höfðu réttarstöðu sakbornings í málinu: Fyrrverandi eiginkona Páls og sex blaðamenn. Fram kom í Facebook-færslunni að fyrrverandi eiginkonan hafi játað að hafa byrlað Páli, stolið síma hans og afhent blaðamönnum. Málið væri hins vegar ekki líklegt til sakfellingar og því ákveðið að fella það niður.
Þá segir í færslunni að framburður konunnar hafi verið stöðugur allan tímann um að hún hafi afhent fjölmiðlum símann. Skipaður lögmaður hennar, Hólmgeir Elías Flosason, sagði í samtali við Heimildina fyrr í þessum mánuði að þetta sé alrangt og han hafi upplýsingar undir höndum sem sýni að lögregla fari með ósannindi í færslunni.
Eins vísar lögregla til þess ítrekað að rannsóknin hafi dregist á langinn vegna veikinda konunnar. Hólmgeir segir þetta tvískinnung, enda hafi hún í tvígang verið dregin fyrir dóm í aðalmeðferð af lögreglu. Um sé að ræða eftiráskýringar þar sem lögregla reyni að breiða yfir eigin klúður.
„Lögreglan er að reyna að fegra sinn hlut og reyna að skýra þennan drátt með vísan til hennar veikinda,“ sagði hann.