Handbolti

Þjálfari Janusar Daða tekur við sænska lands­liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og við var búist var Michael Apelgren ráðinn landsliðsþjálfari Svíþjóðar.
Eins og við var búist var Michael Apelgren ráðinn landsliðsþjálfari Svíþjóðar. getty/Matija Habljak

Michael Apelgren hefur verið ráðinn þjálfari sænska karlalandsliðsins í handbolta. Hann tekur við starfinu af Glenn Solberg sem hætti í síðasta mánuði.

Apelgren er einnig þjálfari ungverska liðsins Pick Szeged og mun halda því áfram meðfram því sem hann stýrir sænska landsliðinu. Íslenski landsliðsmaðurinn Janus Daði Smárason leikur með Pick Szeged.

Apelgren var meðal þeirra sem var orðaður við íslenska landsliðið snemma á síðasta ári. Í viðtali við Vísi kvaðst hann vera spenntur fyrir möguleikanum að stýra Íslendingum. „Ég hafði heyrt af því að það gæti verið áhugi frá Íslandi og ég var upp með mér að heyra það,“ sagði Apelgren í samtali við Vísi. Á endanum var Snorri Steinn Guðjónsson hins vegar ráðinn í starfið.

Ekki ætti að taka langan tíma fyrir Apelgren að koma sér inn í hlutina hjá sænska landsliðinu. Hann var nefnilega aðstoðarþjálfari þess um tveggja ára skeið en samningur hans rann út um síðustu mánaðarmót.

Apelgren, sem er fertugur, hóf þjálfaraferilinn hjá Elverum í Noregi. Undir hans stjórn vann liðið norska meistaratitilinn sex ár í röð. Árið 2020 tók hann svo við Sävehof í heimalandinu og stýrði liðinu þar til hann hætti í sumar. Apelgren gerði Sävehof tvisvar að sænskum meisturum.

Fyrsta verkefni Apelgrens með sænska liðið er EHF Euro Cup í næsta mánuði. Mótið er liður í undirbúningi Svía fyrir HM í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×