Fótbolti

Hareide: „Við gerðum skelfi­leg mis­tök“

Sindri Sverrisson skrifar
Åge Hareide og Davíð Snorri Jónasson aðstoðarmaður hans, á bekknum á Laugardalsvelli í kvöld.
Åge Hareide og Davíð Snorri Jónasson aðstoðarmaður hans, á bekknum á Laugardalsvelli í kvöld. vísir/Anton

„Ég er mjög vonsvikinn því við spiluðum ekki eins og til stóð í fyrri hálfleiknum. Við gerðum skelfileg mistök sem eiga ekki að sjást í alþjóðlegum fótbolta,“ sagði Åge Hareide, þjálfari Íslands, eftir 2-2 jafnteflið við Wales í Þjóðadeildinni í kvöld.

Hareide var afskaplega vonsvikinn yfir mörkunum sem Ísland fékk á sig í fyrri hálfleiknum, þegar langar sendingar galopnuðu vörn Íslands og gáfu Wales dauðafæri.

„En svona gerist í fótbolta og við gerum allir mistök. Það er hluti af leiknum. Það eina sem við gátum gert var að fara inn til búningsklefa í hálfleik, ræða við menn og koma liðinu í gang. Ég verð að hrósa liðsandanum og hvernig liðið tók gjörsamlega yfir leikinn. Við hefðum átt skilið að vinna,“ sagði Hareide og bætti við:

„Þetta var ekki besti varnarleikurinn, það er óhætt að segja. En svona gerist. Ef að varnarmaður gerir mistök þá er það dýrkeypt. Ef að sóknarmaður skýtur í stöng þá virðist það ekki eins dýrkeypt. En við verðum að meta frammistöðuna í heild. Ég er ánægður með hverju við náðum þó út úr þessu.“

Logi Tómasson kom inn á fyrir Kolbein Finnsson í upphafi seinni hálfleiks og skoraði bæði mörk Íslands.

„Logi var stórkostlegur eftir að hann kom inn á. Hann var grimmur og fór fram. Við ætluðum að nota Kolbein í fyrri leiknum og Loga í þeim seinni, því þeir eru báðir góðir, ungir bakverðir. En Logi átti góðan dag og Kolbeinn ekki góðan dag,“ sagði Hareide.

Tilfinningar hans eru því blendnar eftir leikinn: „Það var svo mikilvægt að vinna og mér fannst við geta það. Æfingarnar hafa verið góðar og menn einbeittir. En eins skrýtið og það er þá gleymdum við því öllu í fyrri hálfleiknum. Gleymdum að verjast eins vel og vanalega, og það kostaði okkur. En sem betur fer fengum við tvö mörk og stig.“


Tengdar fréttir

Twitter um leikinn: Haltu bara á­fram að skína Logi

Líkt og áður þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu spilar höfðu stuðningsmenn liðsins mikið að segja á samfélagsmiðlum. Þetta hafði þjóðin að segja um leik Íslands og Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×