Fótbolti

Logi í vímu eftir leik: Ég er vanur að skora góð mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Tómasson átti frábæra innkomu af bekknum og breytti leiknum.
Logi Tómasson átti frábæra innkomu af bekknum og breytti leiknum. Stöð 2 Sport

Logi Tómasson var hetja íslenska fótboltalandsliðsins í kvöld þegar liðið gerði 2-2 jafntefli á móti Wales í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum.

Logi kom inn á sem varamaður í hálfleik í stöðunni 0-2 fyrir Wales og jafnaði metin með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla í seinni hálfleiknum.

Íslenska liðið náði ekki inn sigurmarkinu en þökk sé Loga þó fór liðið ekki tómhent heim.

„Mér líður bara mjög vel. Þetta var rosalegur leikur fyrir mig. Ég ætlaði bara að koma inn og breyta leiknum en ég ætlaði kannski ekki að setja tvö mörk. Það var ekki endilega markmiðið. Þetta var mjög gott,“ sagði Logi Tómasson í viðtali við Val Pál Eiríksson eftir leikinn.

Valur Páll spurði Loga hvort að hann væri viss um að hann sé bakvörður en ekki framherji.

„Ég er búinn að gera þetta tvisvar út í Noregi þar sem ég spila og er vanur að gera þetta á æfingum. Þetta er bara venjulegt skot fyrir mig,“ sagði Logi en hvernig er tilfinningin að skora fyrsta landsliðsmarkið sitt?

„Hún er bara sturluð. Ég get eiginlega ekki lýst þessu. Þetta er bara víma,“ sagði Logi.

„Ég er vanur að skora góð mörk en þetta mun lifa mest í hausnum á mér,“ sagði Logi. Íslenska liðið sýndi karakter með því að vinna sér aftur inn í leikinn.

„Við eigum samt að vinna þennan leik því við fengum endalaust af færum. Eftir á er þetta gott stig en samt lélegt að vinna ekki þennan leik. Við fáum endalaust af færum og við verðum að nýta þessi færi betur,“ sagði Logi.

„Við þurfum að vinna næsta leik,“ sagði Logi en hann er á móti Tyrklandi á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×