Talsverður styr hefur staðið um Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, síðan Ríkisútvarpið greindi frá því að hann hefði tekið upp tólið eldsnemma morguns þann 16. september og hringt í Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra til þess að ræða mál Yazans.
Þá höfðu Yazan og fjölskylda verið flutt á Keflavíkurflugvöll, þaðan sem flytja átti þau til Spánar.
Segir ekkert óeðlilegt við símtalið
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur sagt það óeðlilegt að ráðherra hringi í undirmann annars ráðherra.
Í samtali við fréttastofu vísar Guðmundur Ingi þessum ummælum Bjarna á bug.
„Mér finnst það bara alls ekki óeðlilegt að leita upplýsinga hjá ríkislögreglustjóra, sem ríkislögreglustjóri alls landsins, allra ráðherra, hvernig sem við viljum orða það. Ég virði auðvitað þá keðju undir og yfirmanna sem um er að ræða í þessu máli, þar sem dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar. Ég var að leita upplýsinga og mér finnst eðlilegt að ráðherrar geti leitað upplýsinga hjá embættismönnum inni í íslensku stjórnkerfi. Annað væri óeðlilegt.“
Krafðist einskis
Þá hafi hann ekki farið fram á neitt í símtali sínu við Sigríði Björk en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra stöðvaði brottflutninginn að beiðni Guðmundar Inga.

„Ég segi ekki ríkislögreglustjóra fyrir verkum. En ég sagði ríkislögreglustjóra skoðun mína eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Ég var að leita upplýsinga um hvort það hafi virkilega verið farið inn á hjúkrunar og endurhæfingardeild Landspítalans, Rjóðrið, til þess að ná í fatlað barn til brottvísunar. Ég lýsti þeirri skoðun minni að það ætti að stöðva þennan brottflutning.“
Ekkert samkomulag milli flokkanna
Skömmu eftir að brottflutningi Yazans og fjölskyldu var frestað rann frestur til að vísa þeim úr landi án efnislegrar meðferðar út og svo fór að fjölskyldan hlaut alþjóðlega vernd hér á landi. Því hefur verið velt upp hvort sú niðurstaða hafi verið fyrirframákveðin eftir samkomulagi ríkisstjórnarflokkana.
„Við höfðum ekki gert neitt slíkt samkomulag. Ég hafði rætt þetta áður í ríkisstjórn áður og forsætisráðherra varð við þeirri beiðni minni, að þessu yrði frestað, brottflutningnum, og ég er þakklátur fyrir það. Ég tel að það hafi verið mikilvægt, til þess að það væri hægt að fara yfir málið.“