Nemendur LHÍ í Laugarnesi gengu út úr tíma klukkan 11.20 í morgun og gengu fylktu liði eftir Kringlumýrarbraut, Laugarvegi og að Stakkahlíð þar sem mótmælt var. Verkfallið hófst á Háskólatorgi þar sem ræður voru fluttar en svo héldu nemendur yfir í aðalbyggingu þar sem kröfur til rektors voru útlistaðar.
Kröfurnar eru eftirfarandi, samkvæmt fréttatilkynningu:
- „Að Háskóli Íslands og allar stofnanir hans taki skýra afstöðu gegn þjóðarmorðinu í Palestínu og menntamorðinu sem á sér stað á Gaza.
- Að Háskóli Íslands og allar stofnanir hans slíti öllu samstarfi við ísraelska háskóla og tengdar stofnanir og stofni ekki til nýs samstarfs.
- Að Háskóli Íslands opinberi öll tengsl háskólans og tengdra stofnana við ísraelska háskóla, stofnanir, fyrirtæki og aðra tengda aðila og bindi tafarlaust enda á þau.
- Að Háskóli Íslands taki virkan þátt í enduruppbyggingu menntakerfisins á Gaza, auki samstarf við palestínska háskóla og styðji á annan hátt við menntun nemenda á Gaza, til dæmis með því að bjóða þeim upp á fjarnám við HÍ.“

Daníel Andrason, nemandi HÍ, er einn þeirra sem stóð að verkfallinu og mótmælunum. Hann sagði að ungt fólk gæti ekki þolað að horfa upp á svo mikið óréttlæti. „Þegar ungt fólk horfir upp á svona þá sér það óréttlæti blasa við og þegar svona mikill siðferðislegur tvískinnungur ríkir hjá okkar æðstu menntastofnunum, sem við horfum upp til, þá getum við ekki annað gert en að láta í okkur heyra,“ sagði Daníel.