Hamrarnir steinlágu fyrir Rauða hernum í 4. umferð enska deildabikarsins á Anfield í gær. West Ham komst yfir í leiknum en Liverpool svaraði með fimm mörkum og vann öruggan sigur.
Lopetegui var svekktur með gang mála og endaði á því að meiða sig á hliðarlínunni. Eftir að Crysencio Summerville klúðraði góðu færi í stöðunni 3-1 stökk Lopetegui upp í loftið en lenti illa.
Spánverjinn sat í sæti sínu á varamannabekknum það sem eftir lifði leiks og haltraði svo á blaðamannafund í leikslok. Hann studdist svo við hækjur þegar hann yfirgaf Anfield.
„Ég meiddist aðeins í kálfanum,“ sagði Lopetegui á blaðamannafundinum eftir leikinn. Hann sagði jafnframt að sínir menn hefði ekki átt skilið að tapa svona stórt. Þeir hefðu verið inni í leiknum, átt sín tækifæri en orðið fyrir barðinu á ósanngjarnri dómgæslu.
West Ham hefur ekki farið vel af stað undir stjórn Lopeteguis og er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins fimm stig eftir fimm umferðir. Næsti leikur West Ham er Lundúnaslagur gegn Brentford á laugardaginn.
Lopetegui tók við West Ham af David Moyes í sumar. Hann þekkir ágætlega til ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa stýrt Wolves um tíma.