Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir að þingfundur hefjist klukkan 10:30 í dag þar sem fyrsta mál á dagskrá er liðurinn Störf þingsins. Hann segir að forsætisnefnd muni svo kynna þingflokkum tillögu forsætisnefndar að nýjum umboðsmanni í hádegishléi og kosning um tillöguna fari svo fram þegar þingfundur hefst að nýju klukkan 13:30.
Fjórir einstaklingar hafa gefið kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis – Anna Tryggvadóttir skrifstofustjóri, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Reimar Pétursson lögmaður.
Skúli Magnússon var kjörinn umboðsmaður Alþingis í maí 2021 þegar Tryggvi Gunnarsson lét af störfum. Skúli var á dögunum skipaður dómari við Hæstarétt.
Greint var frá því á vef Alþingis um miðjan ágúst síðastliðinn að undirnefnd forsætisnefndar hefði gengið frá skipan ráðgjafarnefndar, sem yrði undirnefndinni til aðstoðar við að gera tillögu til forsætisnefndar um einstakling sem forsætisnefnd tilnefnir við kosningu í embættið.
Undirnefnd forsætisnefndar skipa þau Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti, og Líneik Anna Sævarsdóttir, 2. Varaforseti. Þau sem skipuðu ráðgjafarnefndina voru Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Ásmundur Helgason landsréttardómari og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir mannauðsráðgjafi.
Umboðsmaður Alþingis verður kosinn til fjögurra ára, frá 1. október 2024 til 30. september 2028.